Uppsagnir ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga á Ríkisspítölum

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 18:10:18 (4879)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að það væri slæmt ef menn færu að vefja þetta mál inn í einhverjar athuganir og samanburðarkannanir út um allt þjóðfélagið. Þetta mál er alveg nauðaeinfalt. Það er þannig að þessi hópur fólks á Ríkisspítölunum er með lægra kaup en annað fólk í sambærilegum störfum á öllum öðrum spítölum. Það liggur fyrir. Það þarf ekkert að kanna það hvernig þetta er hjá öðrum stéttum, bera þetta saman yfir lengri tíma. Þetta liggur allt ljóst fyrir og þetta hefur legið lengi ljóst fyrir. Það var þess vegna sem þessir hópar ákváðu að segja upp störfum og í framhaldi af því er ríkisstjórninni eða samninganefnd ríkisins skrifað 11. nóvember sl. af stjórnarnefnd Ríkisspítalanna. Og af hverju er það gert? Það er vegna þess að fjmrn. hefur aftur og aftur bæði á undanförnum árum og áratugum sent einstökum ríkisstofnunum bréf um það að þessar stofnanir megi ekkert gera, þær megi ekki tala við sína starfsmenn. Þær megi ekki semja við sína starfsmenn. Þess vegna er fjmrn. skrifað. Og hvenær svarar fjmrn.? 8. janúar. Og hvað segir fjmrn. þá? Jú, það eru í raun og veru mjög mikilvægar upplýsingar sem fram koma í bréfi fjmrn. og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir las upp hér áðan, en hæstv. forsrh. las ekki upp. Það er lokasetningin í bréfi fjrmn. Þar segir:
    ,,Kostnaðarauki sem eftir atvikum verður til vegna þessa greiðist af fyrirliggjandi fjárveitingu Ríkisspítala og/eða heilbrrn., ella verður að afla sérstakra heimilda fjmrn. í þessu skyni.`` Og áður er sagt: ,,Ríkisspítalarnir og heilbrrn. skulu fara í þessar viðræður.``
    Með öðrum orðum, fjmrn. hefur samþykkt að heilbrrn. og Ríkisspítalarnir fari í þessar kjaraviðræður og ég tel að það sé mikilvægt og það séu tímamót og það sé hægt að knýja fram árangur á grundvelli þessa bréfs ef menn halda á því með skynsamlegum hætti og átta sig auðvitað á því að það verða að koma þarna til viðbótarfjármunir.
    Ég hef heyrt, virðulegi forseti, að í heilbrrn. og í fjmrn. hafi menn verið að velta því fyrir sér að láta 15 millj. kr. duga í þessu skyni. Ég vil leyfa mér að segja sem fulltrúi í stjórnarnefnd Ríkisspítalanna: Sú tala er alger fjarstæða. Hún er algerlega út í blámóðu fjarska. Eins og fram kom í erindi Ríkisspítalanna til fjárln. í haust þá kosta leiðréttingar sem verið er að tala um þarna miklu meira. Og aðalatriðið er það í mínum huga núna að menn vefjist ekki með málið stundinni lengur heldur gangi í að ræða það og leysa það.