Uppsagnir ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga á Ríkisspítölum

102. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 18:15:48 (4881)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir hans svör og ég þakka þeim öðrum sem hafa tekið hérna þátt í þessum umræðum. En ég verð að segja það að þrátt fyrir að ég finn að það er skilningur hjá hæstv. forsrh. á málinu, þá gætti líka misskilnings í hans máli. Það er greinilegt að hann trúir því, hæstv. ráðherra, að það sé vegna þess að hjúkrunarfræðingar á Borgarspítalanum séu með hærri laun en hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum að hér er þetta alvarlega mál komið upp. Það er ekki rétt. Eins og fram hefur komið í máli annarra hv. þm. er það vegna þess að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður á Ríkisspítölunum eru með langlægstu launin af öllum hjúkrunarfræðingum í landinu og það sýnir að það hefur verið lítið rætt við þessa aðila á þeim þrem mánuðum sem liðnir eru síðan þeir sögðu upp, að þetta skuli

ekki einu sinni vera ljóst, hvað er hér á ferðinni. Það veldur manni að sjálfsögðu miklum vonbrigðum að menn skulu ekki vera búnir að átta sig á því.
    Menn töluðu hér um að gera það sama og gert var á Borgarsjúkrahúsinu. Það er allt saman gott og vel. En menn verða líka að vita það að á Landspítalanum og Ríkisspítölunum öllum hafa menn tekið þátt í sparnaðaraðgerðum ríkisstjórnarinnar af fullum krafti og sparað þar tugir milljóna. En á sama tíma og þar hafa sparast tugir milljóna, þá hafa verið teknar í notkun ýmsar flóknar deildir sem kosta líka mikla peninga. Og þegar hv. þm. Árni Johnsen talar hér áðan og sagðist efast um að við værum á réttri leið, þá langaði mig til að spyrja hv. þm., úr hverju vill hann draga? Vill hann hætta hjartaaðgerðum hér á Íslandi? ( ÁJ: Það er rangt farið með ummæli mín.) Ég skildi hv. þm. þannig. Og vill hann hætta t.d. gervifrjóvgunaraðgerðum hér? Vill hann senda senda það til útlanda?
    Ég er ekki næstum því búin að ljúka mínu máli, hæstv. forseti. En ég verð að segja það að nú þegar þurfa að hefjast viðræður við þetta starfsfólk sem bíður eftir lausn sinna mála. Það má ekki bíða.