Grunnskóli

103. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 18:27:01 (4884)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hygg að hæstv. menntmrh. mundi nú gefa þó nokkuð mikið fyrir að hann hefði verið fámálli í fyrra þegar þetta mál var á dagskrá. Það er ákaflega óþægileg staða hjá hæstv. ráðherranum að hafa þá talað svo ákveðið um að nú væri verið að tjalda til einnar nætur. Ég verð að segja eins og er að ég hef vissa samúð með ráðherranum í þeirri stöðu sem hann er í. Samúðin byggist á því að ég trúi því að þegar hann lét þau orð falla í fyrra að þetta yrði ekki gert aftur, þá hafi hann talið sig hafa loforð fyrir því frá sínum samráðherrum að menn gengju ekki þessa götu tvisvar. Það yrði ekki gert. Ráðherrann valdi þá leið að halda því fram að þetta mundi ekki koma niður á ákveðnum greinum í grunnskólanum. Hann hefði nú gjarnan mátt vita betur, m.a. vegna þess að hæstv. ráðherra menntamála hefur stutt þá stefnu að skólarnir sjálfir réðu sínum innri málum á þann hátt að þeir tækju ákvörðun um það hvað yrði gert í þessum efnum og var þess vegna sannarlega ekki í stakk búinn til þess að taka bæði þá ákvörðun að láta skólana ráða þessu og einnig hitt að fullyrða að ekki kæmi til þessa niðurskurðar. Þetta gat náttúrlega ekki gengið upp.
    En ég hélt nú satt best að segja að ráðherrann mundi líka reyna að tína til björtu hliðarnar, horfa á þetta með augum barnanna og segja sem svo: Það er verið að minnka vinnuskylduna á þessum fullorðnu. Það er verið að stytta vinnudaginn. Af hverju á ekki að stytta vinnudaginn hjá börnum líka og kanna hvort hann hefði ekki einhvern stuðning á þeirri forsendu að skólarnir væru bara of grimmir við börnin? Þetta væru mannréttindamál að stytta þennan skólatíma. Það væru bara kennararnir sem væru svona harðir að hamast á börnunum. En ráðherrann notfærði sér þetta ekki heldur. Ég er viss um að í hópi barna hefði hann fengið þó nokkuð marga sem hefðu tekið undir það með ráðherranum og litið á það bara sem nokkuð gott mál að nú væri verið að fækka þessum tímum og þannig hefði hæstv. menntmrh. eignast stuðningsmenn í stöðunni.
    Það er aftur á móti svo að fái ráðherrann þau fyrirmæli köld frá ríkisstjórninni að honum beri að spara í grunnskólanum, þá á hann ekki gott um vik að spara nema með því að fækka stundum. Það skal viðurkennt. Ég er viss um það að í sumar hefur verið sagt við hann, hæstv. ráðherra, ósköp einfaldlega: Okkur dugar ekki annar menntmrh. en sá sem var reiðubúinn að skera niður þessar stundir. Og í mestu hógværð hefur hæstv. ráðherra verið spurður að því hvort hann vildi vera ráðherra áfram. Kaupverð gærunnar var að kyngja því sem hann hafði sagt í fyrra.
    Þá er að snúa sér að hinu, sem hlýtur að vera ærið umhugsunarefni, að auðvitað er það þingið en ekki einn maður sem ber ábyrgð á því hvað gert er að lögum. Alþingi Íslendinga ber alla ábyrgð á lagasetningunni og það getur ekki falið sig á bak við neina ráðherra í þeim efnum. Hér er því um stjórnarstefnuna að ræða. Fjárveitingavaldið er í höndum þingsins og þingið hefur tekið þessa ákvörðun. Það er svo aftur á móti magnað klúður að þetta frv. það kemur ekki fram það snemma að hægt sé að standa löglega að hlutunum. Í dag gilda grunnskólalögin. Það á að kenna samkvæmt grunnskólalögunum í dag. Það breytir engu þó fjárveitingarnar séu ekki meiri en þær eru, í framkvæmd á það dæmi þá að koma þannig einfaldlega að það verði ekki til peningar í haust. En samkvæmt grunnskólalögunum á að starfa og þetta veit hæstv. menntmrh. ella væri hann ekkert að flytja þetta frv., ella léti hann sér nægja að hafa fjárlagafrv. til að fara eftir.
    En ég vil reyna að skipta þessu máli í þrennt. Það sem ráðherrann stendur óhjákvæmilega frammi fyrir sem beinni skipun, þ.e. er að fækka stundafjöldanum, hann stendur frammi fyrir því sem beinni skipun frá fjárveitingavaldi þingsins. Hitt atriðið er að fjölga í bekkjum. Ég vil segja hæstv. ráðherra það að mér finnst sú ákvörðun vera alveg óhemjuvitlaus og ég ætla að segja hæstv. ráðherra hvers vegna. Kennari þarf að gera tvennt í hverri kennslustund. Hann þarf að halda aga. En það eitt að halda aga dugar ekki, hann þarf líka að kenna. Ef það fyrrnefnda er ekki í lagi, þ.e. aginn, þá getur farið svo að það verði engin kennsla í tímanum. Ekki einn einasti maður verði fróðari um það efni sem átti að vera á dagskrá eftir tímann en hann var áður en kennslustundin hófst. Það er af þessari ástæðu sem kennarar hafa sótt það mjög fast að yfirfylla ekki bekkina sem getur leitt til þess að það verði stjórnleysi í tímanum og niðurstaðan verði sú að enginn læri neitt. Slíkur skóli er og verður slæmur skóli. Á þessu verða menn að hafa skilning. Það getur verið góður skóli sem hefur fáar kennslustundir. En skóli sem situr frammi fyrir þeirri skyldu að mörgum er þjappað það saman í bekk að það skapar stjórnleysi er og verður slæmur skóli hversu margar sem kennslustundirnar eru. Því þá verða bara fleiri lélegar kennslustundir.
    Ég átta mig á því að hæstv. menntmrh. er að ræða þetta mál við hæstv. umhvrh. þessa stundina og nú er komin niðurstaða í málið því hæstv. umhvrh. hefur yfirgefið hæstv. menntmrh. og það þykir mér út af fyrir sig nokkuð gott. En hvort það veit á gott að hæstv. umhvrh. var mjög brosandi það veit ég aftur á móti ekki, ég dreg í efa að það sé nú jafnjákvætt og hitt. ( Gripið fram í: Það var út af öðru . . .   Kvótinn er búinn fyrir árið.) Nú er það svo að þetta tvennt sem hér er verið að tala um er á þann veg að

seinna atriðið hlýtur að vera alfarið á ábyrgð menntmrh., þ.e. að bera ábyrgð á að hafa fjölgað í bekkjardeildum og hafa e.t.v. skapað stjórnleysisástand í vissum bekkjum með því tiltæki. Það er einfalt mál að vera fræðslustjóri og koma með dálka sem sýna hvað þetta séu fáir bekkir. Ástandið er einfaldlega þannig að það verður enginn hávaði á fræðsluskrifstofunni þó það verði allt vitlaust í bekknum. En þetta er atriði sem ég bið hæstv. menntmrh. að skoða í fullri vinsemd. Er vitrænt að fjölga í bekkjunum á þennan hátt?
    Þá kem ég að hinu atriðinu: Hvað hefur hæstv. ráðherra þá gert til að stuðla að því að það verði á Íslandi árangur, þekkingarlegur árangur, sem bæti það upp að við fækkum kennslustundum? Börn fá ekki alla sína þekkingu úr skóla. Kennslufræðin segir að það sem börnin læra án þess að fara í skóla sé ástæðulaust að kenna. Hvaðan fá börnin sína þekkingu? Börnin fá sína þekkingu vissulega af jafnöldrum sínum í umhverfinu, við lestur bóka og úr sjónvarpinu. Og það fer ekkert á milli mála ( Gripið fram í: Og úr blöðunum.) að sá miðill --- það er nú hæpið að tala um þekkingu, hv. þm. af lestri sumra blaða svo mikið er víst. ( ÖS: Ekki Tímans.) En ég veit nú í hvaða blað hv. þm. Össur Skarphéðinsson talar um í þessu sambandi og það má vel vera að honum sé það hjartnæmt að hafa það með í þessari upptalningu og ég skal viðurkenna að það er hægt að fá þekkingu úr blöðunum. En sá miðillinn sem mest hefur sótt fram er sjónvarpið, það fer ekkert á milli mála. ( Gripið fram í: Og Gróa á Leiti.) Það er enginn miðill sem getur náð jafnmiklum árangri í að auka þekkingu barna og ungmenna og sjónvarpið. Þess vegna skora ég á hæstv. ráðherra í þeirri stöðu sem íslensk fjármál eru og ég lít svo á því miður að það sé ekki verið að tjalda til einnar nætur. Ég er ekki búinn að sjá milljarðana streyma inn frá EES eins og menn hafa verið að tala um. Ég er ekki búinn að sjá að við ráðum frekar við skólamálin hér á landi þó það fjölgi börnum sem koma til landsins og tala framandi tungumál og verður þess vegna að kenna á sérkvóta, þ.e. þeim sem hefur verið ætlað til þess að aðstoða þau börn sem einhverra hluta vegna hafa ekki náð árangri í almennu námi. Ég hygg að það séu á milli 300 og 400 börn í Reykjavík sem hafa notið stuðnings eftir þessari leið. Ef þessi börn verða nú kannski 1.000 eftir nokkur ár þá sjá menn hvað þetta kostar. Í fámennu landi, í dreifðu landi hlýtur það þess vegna að vera mjög stórt mál að reyna að virkja aðrar leiðir til þess að koma þekkingu á framfæri. Og ég skora á hæstv. menntmrh. að leita nú samstarfs við Háskóla Íslands um það og Uppeldisstofnun fræðslumála að hér verði sett á stað skólasjónvarp og það verði metið hvort hægt sé að taka eitthvað út úr almennri kennslu og koma þeirri kennslu á framfæri til barnanna í gegnum slíkan miðil. Ég undirstrika það sem ég hef sagt hér, það er ekki 100% víst, það er ekki 100% víst að fækkun kennslustunda sé í öllum tilfellum til þess fallin að draga úr þekkingu barnanna ef farið verður í aðrar aðgerðir til að auðvelda þeim leið til að afla sér þekkingar.
    Þess vegna finnst mér að það hvíli mikil ábyrgð á hæstv. ráðherra á þessum þrengingartímum að leita nýrra úrræða til þess að ná árangri í menntamálum Íslands í grunnskólanum. Ég tel mig aftur á móti hafa talað það skýrt varðandi fjölgunina í bekkjunum að það þurfi ekki að ræða það sérstaklega. Ég vil bara bæta því einu við að eftir því sem fjölgar í bekkjunum þeim mun meiri verður krafan um sérkennslu fyrir einstaka nemendur sem verða út undan vegna þess að nemendafjöldinn í bekknum er orðinn meiri en svo að kennarinn hafi nokkra mögleika til að sinna því starfi sem honum er ætlað að sinna.
    Mér finnst aftur á móti að það sé mjög torskilið svo ekki sé meira sagt, mjög torskilið, hvers vegna hæstv. menntmrh. lætur hafa sig til þeirra verka að setja út úr grunnskólalögunum, þó ekki sé nema tímabundið, skólamáltíðirnar. Það er nú einu sinni svo að við viljum að allir Íslendingar hafi sama rétt. Í heimavistarskólunum sem búið var að byggja á Íslandi eru skólamáltíðir. Þessum skólum var svo breytt í heimanakstursskóla um leið og vegakerfið leyfði að hægt væri að keyra börnin í skólann. Það er staðreynd í dag að þessir skólar eru af þessari ástæðu með sínar skólamáltíðir og betur undir það búnir að taka á móti börnum af þessari ástæðu. Það eru forréttindi að koma í skóla og fá þar máltíð. Það eru hrein forréttindi miðað við hina. Og nú skulum við skoða alvöru þessa máls. Hér í þéttbýlinu og úti um allt land hefur það verið vaxandi allt til þessa að báðir foreldrar ynnu úti. Ef við flettum fjárlögum þessa árs þá sjáum við lið sem heitir Arnarhváll. Hvaða fyrirtæki skyldi það nú vera sem þar er undir? Veit formaður þingflokks Alþfl., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hvaða fjárhæðir það eru sem menn eru að borga með mötuneyti ríkisins í Arnarhváli í gegnum þennan lið? Veit hann það að á sama tíma og starfsmenn þessarar stofnunar sömdu tillögurnar fyrir hæstv. menntmrh. að taka skólamáltíðirnar út úr grunnskólunum þá fóru þeir í mat í Arnarhváli sem er niðurgreiddur af íslenska ríkinu? Og nú hefur hv. þm. Össur Skarphéðinsson lyft erlendu stórblaði hátt upp svo það sjáist ekki framan í hann hvað hann er rauður yfir þeirri staðreynd að þetta skuli hafa verið unnið af Alþfl., með fullum stuðningi Alþfl. Það væri fróðlegt ef Alþýðublaðið mundi nú birta niðurstöðuna, hvaða hlunnindi felast í þessu. Ég er ekki heldur búinn að sjá að þetta komi fram á skattframtalinu þegar gerð verður grein fyrir því. En hvaða ástæða er þá til þess á þessu herrans ári að taka ákvörðun um það að taka skólamáltíðirnar út? Er það siðaðra manna háttur að fullorðnir fái mat á sínum vinnustað, kennararnir fá mat á sínum vinnustað en börnin ekki? Er hæstv. ráðherra ekki ljóst að þetta gengur einfaldlega ekki upp? Það eru fyrirliggjandi upplýsingar í mennmrn. um þessa hluti. Menn voru að samþykkja hér að ganga inn í EES. Hvað með samræmdan aðbúnað barna eftir löndum? Skiptir það engu máli? En hið alvarlega í þessu er það að daprara efnahagsástand hjá okkur Íslendingum gerir það að verkum að það er staðreynd að fleiri og fleiri börn mæta vannærð á morgnana í skólann. Hæstv. ráðherra þarf ekki annað en að kynna sér hver staðan í sumum tilfellum er vegna þess að það er vigtað á haustdegi og vordegi. Það er fylgst með því hvernig mál þróast hjá einstaklingum. Þetta er hin alvarlega staða. Foreldrarnir sem fá góða máltíð um miðjan daginn og eru að vinna á stórum vinnustöðum hugsa margir hverjir sem svo að það sé ástæðulaust að hafa þá aftur þunga máltíð um kvöldið. Það er nú svo að fjöldi Íslendinga á við það vandamál að stríða að vigtin stígur upp. ( Gripið fram í: Þeir borða of mikið.) Þeir borða of mikið. Þá draga þeir úr því sem þeir borða á kvöldin og hvað þýðir þetta fyrir börnin? Þetta þýðir það

að e.t.v. er staðreyndin sú að sum þeirra fá snarl alla vikuna nema á laugardögum og sunnudögum. Svo er verið að kenna heilsufræði í skólum og þetta er heilsufræðin sem íslenska þjóðfélagið leggur á þessi börn.
    Í reynd er fáránlegt að líta svo á að það geti verið annað en eðlilegt viðhorf hvers einasta Íslendings, ég segi hvers einasta Íslendings og ég hika ekki við að hafa hæstv. menntmrh. með, það er viðhorf hvers einasta Íslendings að íslensk börn eigi að fá eðlilegan mat. Þess vegna er ekki hægt að líta á það sem sparnað að börnin fái ekki mat í skólunum. Það er ekki hægt að líta á það sem sparnað. Það er þá fyrst og fremst aðeins spurningin um það hver borgar matinn. Ég trúi því ekki að hæstv. menntmrh. vilji komast á spjöld sögunnar út á það að vera ráðherrann sem kom því út úr grunnskólalögunum að það ættu að vera skólamáltíðir í íslenskum skólum. Hæstv. ráðherra verður fyrirgefið það þó hann hafi staðið frammi fyrir því að þurfa að skera niður kennslustundafjöldann. Við höfum horft á það hvað orðið hefur að gera í heilbrigðiskerfinu, við höfum horft á það, honum verður fyrirgefið það. Honum verður lagt það út sem þekkingarskortur, þekkingarskortur á skólamálum, að hafa orðið til að fjölga í bekkjardeildum. En það verður hvorki hægt að bera við þekkingarskorti eða að harðræði á Íslandi sé slíkt að það sé verjandi að taka þennan lið út þó að þetta standi í lögunum áfram þá gerir það það eitt að verkum að ef menn eru að teikna skóla í dag og hanna þá muni þeir taka tillit til þess að það er ætlast til þess að menn hafi þar skólamáltíðir. Hérna hafa að mínu viti undirmenn hæstv. menntmrh. ekki ráðlagt honum heilt, svo einfalt er það mál.
    Og af því að hæstv. menntmrh. var nú þekktur fyrir það þann tíma sem hann var óbreyttur þingmaður að setja ekki undir sig hausinn og vaða áfram án þess að leita að skynsamlegum lausnum í samskiptum við aðra um mörg deilumál þá vona ég að hæstv. menntmrh. eigi enn til þessa hlið og að hann muni ekki verða til þess að gera það aftur, að leggja það fyrir Alþingi Íslendinga að taka þennan þátt út. Það er slíkt glapræði að sjá ekki hvert við stefnum með þessu móti.
    Mér finnst að það gleymist stundum og ég hef sagt það áður í þessum ræðustól að það var eitt sinn skylda hermanna að sjá um að fæða sig sjálfir. Það var skylda þeirra að koma með mat með sér en herskyldan var þegnskylda. Ef við hugsum þetta mál út frá mannréttindum barna sem enginn veit hvort ná fullorðinsaldri eða ekki þá erum við að skylda þau með herskyldu á vissan hátt til að fara í skólana og við erum enn í gamla tímanum, þ.e. þau eiga svo sannarlega að koma með mat sinn sjálf eins og hermennirnir á sínum tíma.
    Ég veit að þetta mál getur ekki og má aldrei verða þess eðlis að viðhorf manna til þessa máls fari eftir því í hvaða stjórnmálaflokki þeir eru. Það hlýtur að vera til það félagshyggjuafl í hverjum einasta stjórnmálaflokki á Íslandi að hann hafi skilning á þessu máli.
    Herra forseti. Ég veit að mikil áhersla er lögð á það að fara að ljúka umræðunni og með orðum mínum hef ég ekki verið að tefja málið. Ég hef verið að koma þeim skoðunum á framfæri sem ég tel grundvallaratriði að greina hér frá. Ég ítreka það þess vegna sem lokaorð mín hvaða kröfur sem fjármálavaldið leggur á hæstv. menntmrh. þá vænti ég þess að hann átti sig á þessu tvennu, það er ekki skynsamlegt að fjölga í bekkjardeildunum og hitt, það er ekki hægt að snúa þróuninni við og segja í dag að það eigi að taka út það sem er komið í lög um að börnin eigi rétt á skólamáltíðum.