Grunnskóli

103. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 19:16:23 (4888)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Vissulega væri freistandi að flytja alllangt mál vegna þess hve stórt mál hér er á ferðinni en þar sem þegar hefur komið fram í mjög greinargóðum ræðum fulltrúa minni hluta hv. menntmn. öll sú röksemdarfærsla sem ég tel brýnast að komi fram í þessari umræðu mun ég einungis taka tvö aðalatriði út sem ég tel einnig nauðsynlegt að gera sér grein fyrir.
    Áður en ég geri það vil ég minna á að það er ekki bara íhaldsstjórnin í Svíþjóð sem hefur kosið að efla grunnskólann og bæta menntun heldur var það sérstaklega áberandi er Norðmenn gengu frá fjárlögum sínum fyrir árið sem er gengið í garð, um svipað leyti og við Íslendingar vorum að fjalla um fjárlög, að þar var lagt til viðbótarframlag til menntamála ekki síst grunnskólamála þrátt fyrir einn mesta samdrátt sem sést hefur á fjárlögum þar í landi. En þar var skorið niður annars staðar. Þetta þótti ekki vera hægt að skera. Þar er samt sem áður mun betur búið að grunnskólabörnum en gert er hér á landi. Þessu

held ég að nauðsynlegt sé að halda til haga. Ég vil einnig vekja athygli á því að þetta er sú stefna sem þykir ekki einasta mannréttindamál heldur einnig afskaplega góð fjárfesting. Ég er afskaplega hrædd um að ef þetta á að fara að verða stíllinn á samdráttartímum, að draga úr þjónustu við grunnskólabörn í staðinn fyrir að auka hana, þá munum við súpa seyðið af því síðar.
    Þau tvö atriði sem ég taldi sérstaka ástæðu til að leggja áherslu á eru í fyrsta lagi að skerðingin stundafjölda nemenda er mjög mikil á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu og í rauninni meiri en ég held að menn hafi e.t.v. gert sér grein fyrir að yrði. Á Reykjanesi er um það að ræða að í 2,14% tilvika er nýtt heimild til þess að hafa stækkaða bekki og í 3,10% tilvika í Reykjavík. Þetta eru ekki bara einhverjar litlar sætar prósentutölur heldur eru þetta allmargir bekkir eða samtals 19 bekkjardeildir í Reykjavík og 12 deildir á Reykjanesi. Hvers eiga þessi börn að gjalda sem eru í allt of stórum bekkjum?
    Ég held að þetta sé sérstaklega alvarlegt þar sem þetta er í þéttbýlinu þar sem allir eru sammála um að frekar þurfi að hlúa betur að börnum en draga úr þjónustu við þau. Það er hætt við að þau týnist og fái ekki notið hæfileika sinna.
    Það er einkum tvennt sem mér finnst að þurfi að bæta við umræðuna. Hv. síðasti ræðumaður kom inn á annað atriðið en það er sú skerta kennsla sem er í list- og verkmenntagreinum en það held ég að sé sérlega alvarlegt í okkar skólakerfi nú. Það er ekki nóg með að þessi skerðing bitni á undirstöðugreinum okkar, sem að sjálfsögðu er algjörlega óverjanlegt, eins og t.d. íslenskukennslu, heldur er það líka mjög slæm skólastefna ef ekki er sérstaklega hugað að því að auka veg og virðingu list- og verkmenntagreina og það ekki á kostnað undirstöðunnar í bóknámi.
    Þetta finnst mér í rauninni íhugunarefni. Ég veit af fyrri ræðum hæstv. menntmrh., eða ég tel að ég megi ráða það í ræður hans, að hann sé mér sammála. Þetta verður ekki gert öðruvísi en nægur stundafjöldi sé til umráða og að það séu ekki of fjölmennar bekkjardeildir. Víða er það reynt, og það er raunar tíundað mjög vel í þeim fylgiskjölum sem fylgja nál. minni hluta hv. menntmn., að kenna saman heilum bekkjum í list- og verkmenntagreinum. Það er unnt ef bekkirnir eru ekki of fjölmennir. Það er misjafnt eftir verklagi kennara, það er líka misjafnt eftir aldri barna og það er líka misjafnt eftir því hver viðfangsefnin eru en þetta er sums staðar unnt ef bekkirnir eru ekki of stórir. Annars staðar þarf að skipta og svo sem fram kemur í upplýsingum, m.a. úr skólaumdæmi Reykjavíkur, er fjöldi stunda þar sem hægt er að skipta bekkjum afskaplega lítill og í rauninni minnkandi.
    Ef ég vitna í umsögn Landssamtakanna Heimilis og skóla frá því 7. jan. sl. til menntmn. þá sé ég að þar deila forsvarsmenn þeirra samtaka áhyggjum mínum út af þessu máli. Þar kemur sérstaklega fram, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Börn fá ekki lágmarkskennslustundafjölda samkvæmt viðmiðunarstundaskrá því skólarnir treysta sér ekki til að láta kenna list- og verkgreinar í heilum stórum bekkjum og skiptitímar eru of fáir. Dæmi eru um að bekki vanti 2--5 vikustundir upp á viðmiðunarstundaskrá.``
    Ég held að þetta sé okkur ekki bara dýrt núna vegna þess að það hlýtur að vera varasamt að beina öllum börnum í bóknám, heldur verður þetta sérlega dýrt í framtíðinni. Þetta þýðir að nauðsynlega undirstöðu vantar í þessum fögum og það er ekki hvatning börnum til að velja sér fjölbreyttara nám en núna er gert. Ég held þess vegna að ekki sé annarra kosta völ en huga bæði að stærð bekkja og kennslustundafjölda ef einhvern tímann á að bæta úr þessu af nokkru viti. Annars erum við bara að gefa okkur ávísun á vandræði í framtíðinni.
    Annað sem þessi skerðing á tímum hefur í för með sér varðar sérkennslu, sem hæstv. ráðherra tók sérstaklega fram í því útvarpsviðtali sem oft hefur verið vitnað til í dag að ætti ekki að verða fyrir barðinu á þessum niðurskurði. Þörfin fyrir sérkennslu er vaxandi og ein þeirra ástæðna sem eru fyrir því er sívaxandi fjöldi nemenda sem þarf á sérkennslu að halda vegna þess að þeir eru ekki talandi á íslenska tungu. Hér er um að ræða börn fædd erlendis sem hafa flust með fjölskyldum sínum hingað til lands og búa á heimilum þar sem íslenska er ekki móðurmál allrar fjölskyldunnar. Þarna eru t.d. þau börn flóttafólks sem flust hefur hingað. Þetta er sérstakt áhyggjuefni. Raunar má minna á að við kvennalistakonur fluttum brtt. við 2. umr. fjárlaga vegna þessara barna sérstaklega. Samkvæmt upplýsingum sem fram komu í áliti um sérkennslu frá Áslaugu Brynjólfsdóttur í Reykjavík og birt er með áliti minni hlutans eru á þriðja hundrað nemenda í grunnskólum Reykjavíkur sem koma erlendis frá og þarf á verulegri aðstoð í íslensku að halda. Af þeim eru 82 börn sem eru af erlendu bergi brotin og tala litla sem enga íslensku, þurfa mikla aðstoð og 139 börn af íslensku bergi brotin sem hafa dvalið langdvölum erlendis og þurfa á aukinni íslenskukennslu að halda. Sum þessara barna tala og skrifa mjög bjagað mál, segir í umsögn þessari sem ég er að vitna til.
    Þessi börn eru einnig annars staðar á landinu og það er a.m.k. á þriðja hundrað barna sem þarf á miklu meiri þjónustu að halda en þau fá og er ég þá aðeins að ræða um þau börn sem eru af erlendum uppruna en búsett hér á landi. Þess eru því miður dæmi að börn hafi hreinlega týnst í íslenska skólakerfinu og velkst þar í mörg ár. --- Vona ég að hæstv. ráðherra sé innan seilingar sem ég sé að hann er. --- Þessi börn hafa velkst í íslenska skólakerfinu án þess að fá þá aðstoð sem þau þurfa þrátt fyrir að víða hafi verið reynt að grípa í taumana. Það er einfaldlega ekki svigrúm fyrir mikla sérkennslu handa börnunum. Sums staðar uppgötvast þau ekki. Í sumum tilvikum er þetta svo alvarlegt að börnin bæra ekki á sér og þau finnast ekki. Þau koma út úr íslenska skólakerfinu eftir e.t.v. margra ára nám og eru ekki einu sinni talandi á íslensku. Við getum nærri hversu vel þau hafa getað tileinkað sér námsefnið og hversu vel þau eru í stakk búin til að mæta því samfélagi sem við höfum boðið þau velkomin í, a.m.k. í orði en kannski ekki á borði.
    Þetta finnst mér sérstök ástæða til að nefna hér vegna þess að sá niðurskurður sem við erum að ræða hér er nákvæmlega á þeim tímum sem börnum er ætlaður og á því að hægt sé að hafa smærri bekkjardeildir, þ.e. sá fjöldi sem leyfður er, sem bitnar sérstaklega á þessum börnum. Ég veit að vandinn er margvíslegur og vandi margra barna er mikill en kannski erum við þarna með þann hóp sem einna verst er settur. Það litla svigrúm sem er til sérkennslu í íslensku skólakerfi dugar alls ekki til þess að veita þessum börnum og öllum öðrum sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda þá þjónustu sem við getum verið fullsæmd af.
    Annars staðar á Norðurlöndum er þessum málum miklu betur komið. Kannski stafar það af meiri reynslu þessara þjóða við að fást við þessi mál. Hver svo sem ástæða er hafa verið teknar saman á vegum menntmrn. upplýsingar sem sýna hvernig ástandið er hér á landi og hvernig það er á öðrum Norðurlöndum. Við getum dregið lærdóm af þessu og einn sá lærdómur sem við verðum að draga af þessu ástandi er að við verðum að veita meira svigrúm innan íslenska skólakerfisins.