Grunnskóli

103. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 19:28:55 (4889)


     Frsm. minni hluta menntmn. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Það hefur fjölmargt komið fram í þessari athyglisverðu umræðu um málefni grunnskólanna hér í dag. Gagnstætt því sem ríkisstjórnin hafði bersýnilega gert ráð fyrir hafa þingmenn talið ástæðu til að ræða þetta mál nokkuð og gefa út um það ítarleg nál. Ég tel mikilvægt og ánægjulegt að þingmenn líti þannig á að skólamál séu mikilvæg mál sem eigi að tala um. Þau séu ekkert síður merkileg en þessi vísitölumál og efnahagsmál og öll þessi stóru stofnanatungumál og mál sem menn eru mjög oft uppi með. Ég tel það því fagnaðarefni að fengist hefur umræða um skólann og menn láta ekki skerðinguna ganga fram þegjandi og hljóðalaust, jafnvel þó hún sé aðeins framhald af þeirri skerðingu sem var á sl. ári.
    Ég tel einnig mikilvægt, virðulegi forseti, í þessari umræðu að hæstv. menntmrh. hefur staðfest þann skilning sinn að grunnskólalögin og 46. gr. sérstaklega hafi verið í gildi frá áramótum og að fjárlög geti að sjálfsögðu ekki tekið af grunnskólalög. Það skiptir mjög miklu máli fyrir það fólk sem starfar í skólunum að vita að það sé tvímælalaus skilningur ráðuneytisins, ekki síst eftir að starfsmenn þess höfðu gefið annað í skyn á fundi með menntmn. hv. Alþingis.
    Ég tel það enn fremur býsna athyglisvert sem fram kom hér í umræðum í dag að hæstv. ráðherra hafði hugsað sér að tryggja það að íslenskan yrði ekki skert að neinu leyti, en sú virðist þó hafa orðið raunin. Hæstv. ráðherra hefur sagt að ráðuneytið hafi ekki upplýsingar um það hvaða kennslugreinar voru skertar. Ég tel hins vegar víst að ráðuneytið hafi þessar upplýsingar þó að þær hafi ekki verið dregnar saman. Ég fullyrði að þessar upplýsingar eru allar til í skólahaldsskýrslunum fyrir þetta kennsluár og þar á undan og í sjálfu sér er það nokkurt verk að bera saman tímaframboð í kennslustundaframboði í skólanum milli þessara tveggja ára, en það er þó hægt. Þetta eru um 200 grunnskólar í landinu og auðvitað talsvert verk að tína það saman eins og ég sagði, en það er framkvæmanlegt og þess vegna höfum við hér fjórir hv. þm. sem skipum minni hluta menntmn. lagt fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh. með beiðni um skriflegt svar um skerðinguna á tímunum eftir greinum og eftir bekkjardeildum. Við gerum okkur að sjálfsögðu ljóst að það tekur einhvern tíma að tína þetta saman, en við teljum mikilvægt að þetta fáist upp á áframhaldandi umræður um skólamál.
    Ég tel að það sé einnig mjög nauðsynlegt að undirstrika það við lok þessarar umræðu að það hafa ekki farið fram neinar viðræður við kennarasamtökin um stærstu kerfisbreytingu í grunnskólamálum sem menn hafa rætt um um áratuga skeið á Íslandi og það er að flytja grunnskólann yfir til sveitarfélaganna. Það er stærsta kerfisbreyting í barnaskólamálum sem gerð hefur verið á Íslandi um áratuga skeið, það er engin spurning um það. Ég tel að Kennarasambandið og aðrir hlutaðeigandi aðilar eigi að koma að því máli og ég skora á hæstv. menntmrh. að hefja hið fyrsta formlegar viðræður og skipulegar við Kennarasambandið um þau mál vegna þess að við þekkjum það t.d. frá breytingunum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að það er nauðsynlegt að hafa öll starfsmannafélög og aðra með í ráðum alveg frá upphafi til þess að hlutirnir fari fram með sem mýkstum og heppilegustum hætti fyrir alla aðila. Og einhvern veginn liggja nú verkin þannig í skólunum dálítið öðruvísi en annars staðar. Í skólunum eru börn á tilteknum aldri og ef eitthvað misferst eitt árið, þá verður það ekki leiðrétt að fullu árið sem kemur þar á eftir vegna þess að við gerum ekki börnin 7 ára eða 8 ára aftur. Þau eru það bara einu sinni. Og þetta eru verðmætustu árin í lífi hvers einstaklings. Þess vegna þarf að vanda sig í því hvernig farið er með skólana, rekstur þeirra, kennslu og allt skipulag. Það er ekki hægt að spóla börnum aftur eins og segulbandstæki, sem betur fer.
    Varðandi það sem fram kom hér hjá hv. 4. þm. Reykn., þá heyri ég það nú á öllu að ég á margt vantalað við hann um skólamál, mjög margt. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef mjög oft verið í miklum ágreiningi við sveitarstjórnarmenn um skólamál, hvort sem ég hef verið menntmrh. eða ekki. Það getur vel verið að ég hafi verið í hópi þeirra manna sem menn segja sem svo að hafi vantreyst sveitarfélögunum að einhverju leyti og það er rétt að ég hef gert það og ég hef haft rök fyrir því. M.a. þau rök að sveitarfélögin eru misjöfn, ekki aðeins að pólitískri innstillingu þeirra sem þar ráða heldur líka af efnahagslegri og fjárhagslegri getu. Af hverju erum við með grunnskólalög? Það er til þess að tryggja að öll börnin í landinu eigi jafnan rétt til menntunar. Nú vitum við það að hann getur ekki verið 100% jafn heldur hljótum við að leitast við af fremsta megni, eins og segir í textum sem við lærðum þegar við vorum yngri, að tryggja það að réttur barnanna sé jafn. Við vitum það að hann getur ekki verið gersamlega jafn heldur hljótum við að hafa þessa stefnu.
    Fari það svo sem er auðvitað hugsanlegt að menn þurfi að ganga í gegnum þá kollsteypu eins og aðrar --- mér liggur við að segja vitleysu, hv. þm., en segi nú bara kollsteypu til þess að skafa aðeins utan af orðbragði mínu --- segjum að menn þurfi endilega að fara í gegnum þessa kollsteypu að koma skólunum yfir á sveitarfélögin, þá er ég alveg sannfærður um það að menn munu snúa frá því fljótlega aftur vegna þess að menn munu komast að því að það er ekki hægt að fullu af því að það verður að taka svo

og svo mikið af fjármunum í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til skólanna til að tryggja að þeir séu í raun og veru jafnir og hafi jafnan rétt. Og ég spyr menn líka: Um hvað eru menn nákvæmlega að tala? Eru menn að tala um að það verði eingöngu breytt um launagreiðanda hjá skólunum þannig að sveitarfélögin borgi kaupið hjá kennurunum í staðinn fyrir ríkið? Ef menn eru að tala um það eingöngu og þá einu breytingu í þessum efnum, þá segi ég fyrir mig: Mér er eiginlega alveg sama um það, enda verði farið eftir kjarasamningum. Það skiptir mig engu máli jafnvel þó að Sparisjóður Hafnarfjarðar t.d. borgaði kaupið í Hafnarfirði, það breytir engu fyrir mig, skiptir mig engu máli, enda verði fylgt kjarasamningum. Það sem skiptir máli er að sú menntun sem börnunum er boðin sé sambærileg. Það sem skiptir máli er þar með að kennararnir sem veljast til skólanna í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi eða hvar það nú er hafi sambærilega menntun eða það séu gerðar sambærilegar kröfur til þeirra. Það er í fyrsta lagi. Það þýðir með öðrum orðum að launin sem þessir kennarar fái hljóti að verða svipuð í grófum dráttum um landið allt. Það getur ekki orðið gríðarlega mikill munur á, auðvitað einhver en ekki gríðarlega mikill. Þá er búið að ákveða í raun og veru einn stærsta kostnaðarþáttinn. Hann hlýtur í meginatriðum að vera afgreiddur á sameiginlegu borði a.m.k. að svo miklu leyti sem um er að ræða sameiginlegar kröfur til kennaranna í landinu öllu.
    Í annan stað er nauðsynlegt að átta sig á því að það hljóta að verða gerðar svipaðar kröfur til menntunar barnanna í landinu öllu, lágmarkskröfur á ég við, í íslensku, í reikningi, í tungumálum, í stærðfræði o.s.frv. Og þá spyr ég: Hver er þá eftir hlutur sveitarfélaganna? Jú, hann er sá að bæta við. Við skulum þá segja að í grunnskólalögunum séu ákveðið lágmark tryggt alls staðar en síðan geti sveitarfélögin bætt við hvert hjá sér. Hvaða sveitarfélög geta bætt við? Það geta aðeins sum sveitarfélög bætt við en ég geri ráð fyrir því að ef sveitarféögin hafa staðið frammi fyrir því um nokkurra ára skeið að launin séu ákveðin nokkurn veginn miðsvæðis á einu borði, nokkurn veginn, ég segi ekki 100%, að námskröfurnar séu ákveðnar þannig líka, að húsnæði skólanna sé í grófum dráttum ákveðið þannig líka, þ.e. vissar lágmarkskröfur í þeim efnum og tímaframboð verður að tryggja það að öll börn í landinu fái a.m.k ákveðið marga tíma. Þegar sveitarfélögin hafa staðið frammi fyrir þessum veruleika kannski 4--5 ár eða eitthvað því um líkt, það sem úrslitum ræður um allan kostnað skólanna er eftir sem áður í raun og veru ákveðið af ríkinu eða Alþingi eða ríkisstjórn eða hvað það nú er, þá hugsa ég að sveitarfélögunum finnist sinn stakkur nokkuð þröngt sniðinn.
    Auðvitað er það hins vegar svo t.d. í dag að sveitarfélögin geta bætt við eins og þau vilja. Það hefur Hafnarfjörður gert t.d. mjög myndarlega í seinni tíð. Það hefur Kópavogur gert líka. Það hafa ýmis sveitarfélög gert fleiri, bætt við gæslutímum t.d. og jafnvel beinum kennslutímum sem hafa verið kostaðir af sveitarfélögunum og það er vel. En það geta þau hvort sem launagreiðslurnar eru skráðar á ríkið eða einhvern annan. Þess vegna held ég, virðulegi forseti, að þegar upp er staðið í þessu efni, þá hljóti allir jafnaðarmenn hvort sem þeir styðja ríkisstjórn eða ekki að vera sammála í þessu máli og geta náð sameiginlegri lendingu.