Grunnskóli

103. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 19:46:26 (4892)

     Hjörleifur Guttormsson :

    Virðulegi forseti. Með þessu frv. er haldið uppi stefnu sem tekin var upp af núv. ríkisstjórn á fyrra ári. Hér er gengið gegn menntun ungmenna í landinu með mjög ákveðnum hætti og fyrir jólin voru stigin skref í sambandi við menningarmál í landinu sem horfa til sömu áttar, til öfugrar áttar.
    Á Norðurlöndunum og í Norðurlandasamstarfi er látið að því liggja að menn ætli sér að reyna að taka á í sambandi við menningarmál og menntamál. Það er að vísu sýnd veiði en ekki gefin enn sem komið er en hér á Íslandi ganga menn til öfugrar áttar.
    Sá meiri hluti sem hér samþykkti samning um Evrópskt efnahagssvæði er að taka á sig mikla ábyrgð og það er ekki einu sinni viðleitni til þess að styðja við bakið á íslenskri menningu og uppeldi barna í skólum landsins. Þetta er hörmulegt að horfa upp á og ég segi nei.