Frestun á fundum Alþingis

103. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 19:52:51 (4896)

     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég vildi taka það fram í tilefni af flutningi tillögunar að ég tel alveg óþarft að flytja tillögu sem þessa þó að hlé verði á fundum Alþingis. Það er mjög lítið mál að kalla þingmenn saman til fundar ef á þarf að halda. Í 23. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:
    ,,Forseti lýðveldisins getur frestað fundum Alþingis tiltekinn tíma, þó ekki lengur en tvær vikur og ekki nema einu sinni á ári.``
    Ég lít ekki svo á að þessi grein skyldi Alþingi til að samþykkja í hvert skipti sem einhver frestun verður á fundum. Þess vegna tel ég óþarfa að flytja þessa tillögu.
    Ég vil taka undir það sem fram kom hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. þar sem hann talaði um bráðabirgðalög og tel að það skipti miklu máli að ekki verði gripið til þess ráðs. Hins vegar vil ég taka það fram að ég tel að ríkisstjórnin hafi ekki neina heimild til þess að setja bráðabirgðalög, hvort sem um samþykkt slíkrar tillögu er að ræða eða ekki. Ég tel raunar að taka verði á máli sem þessu og hafði vonað að það yrði gert þar sem kom fram athugasemd bæði á fundinum fyrir jólahlé sem og af minni hálfu beint við hæstv. forsrh. utan fundar áður en sú tillaga kom til umræðu. Þess vegna veldur það mér ákveðnum vonbrigðum að ekki skyldi hafa verið tekið á þessu máli áður en ákveðið var að flytja tillöguna. Hins vegar ætla ég ekki að setja mig á móti henni en ég treysti mér ekki til að greiða henni atkvæði ef haldið verður við það að flytja hana. Mér fyndist eðlilegt að hún hefði ekki verið flutt.