Frestun á fundum Alþingis

103. fundur
Fimmtudaginn 14. janúar 1993, kl. 20:00:19 (4900)


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil árétta það sem hv. 9. þm. Reykv. sagði og vísa til meðferðar þingskapalaga þegar við settum þessi nýju þingsköp. Það liggur alveg ljóst fyrir að það er óþarfi við núverandi þingsköp að setja bráðabirgðalög. Það er ævinlega hægt að kalla þing til fundar hvenær árs sem er. Ég tel að bráðabirgðalagaréttur hafi verið notaður ansi frjálslega á undanförnum árum og einmitt til þess að koma í veg fyrir að hann væri notaður með þeim hætti sem gert var eru þingsköpin svona orðuð. Hins vegar var ekki fortakslaust tekið fyrir að mögulegt væri að setja bráðabirgðalög ef um væri að ræða náttúruhamfarir eða stríðsástand. Okkur þótti það viðurhlutamikið að nema bráðabirgðalagaréttinn alveg úr þingsköpum. En það er ástæðulaust að beita honum og breytingin á þingsköpunum var gerð til þess að koma í veg fyrir að honum yrði beitt.
    Ég þakka hæstv. forsrh. yfirlýsinguna. Ég spyr hvort ég skildi ekki hæstv. forsrh. rétt að ekki mundi koma til bráðabirgðalagasetningar í þessu þinghléi og að þing yrði kallað saman ef ríkisstjórnin þyrfti á því að halda að fá löggjöf samþykkta.