Minning Einars Olgeirssonar

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 13:34:22 (4906)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Einar Olgeirsson, fyrrv. alþm. andaðist á Hrafnistu í Hafnarfirði sl. miðvikudag, 3. febr. níræður að aldri.
    Einar Olgeirsson var fæddur á Akureyri 14. ágúst 1902. Foreldrar hans voru hjónin Olgeir bakari þar Júlíusson bónda á Barði á Akureyri Kristjánssonar og Solveig Gísladóttir bónda á Grund í Svarfaðardal Pálssonar. Hann lauk gagnfræðaprófi á Akureyri 1917 og brautskráðist úr Menntaskólanum í Reykjavík 1921. Haustið 1921 innritaðist hann í háskólann í Kaupmannahöfn en dvaldist þar skamman tíma, fór þaðan til háskólanáms í Berlín, nam þar enskar og þýskar bókmenntir og tungumál. Próf tók hann ekki en hvarf heim til Akureyrar 1924.
    Á árunum 1924--1928 var hann kennari við Gagnfræðaskólann þar, framhaldsdeild sem bjó nemendur undir stúdentspróf. Hann var forstjóri Síldareinkasölu Íslands á Akureyri 1928--1931 og forstjóri Íslensk-rússneska verslunarfélagsins í Reykjavík 1931--1935. Hann var ritstjóri Verkalýðsblaðsins 1935--1936, Þjóðviljans 1936--1941 og 1942--1946 og Nýs dagblaðs 1941--1942. Einnig var hann ritstjóri Réttar, tímarits um þjóðfélagsmál 1926--1941 og 1946--1984 og Verkamannsins, blaðs á Akureyri, 1931--1933.
    Einar Olgeirsson var ritari Verkalýðssambands Norðurlands frá stofnun þess 1925 og var kosinn formaður þess 1931. Formaður Verkamannafélags Akureyrar var hann 1928--1931. Við alþingiskosningar 1937 var hann kjörinn alþingismaður Reykvíkinga og sat á Alþingi til 1967, á 35 þingum alls. Í upphafi var hann þingmaður Kommúnistaflokks Íslands, því næst Sameiningarflokks alþýðu --- Sósíalistaflokksins og loks Alþýðubandalagsins. Hann var formaður Sameiningarflokks alþýðu --- Sósíalistaflokksins 1939--1968 og formaður þingflokksins 1939--1962. Einar Olgeirsson var forseti neðri deildar Alþingis 1956--1959. Árið 1967 sat hann á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

    Einar átti sæti í ýmsum nefndum og ráðum. Hann var kosinn í milliþinganefnd um stjórnarskrármálið 1942, var í útvarpsráði 1943--1947, í landsbankanefnd 1944--1955 og í skilnaðarnefnd 1944. Hann var skipaður í þjóðhátíðarnefnd lýðveldisstofnunar 1944. Varaformaður nýbyggingarráðs var hann 1944--1947. Í raforkuráði, síðar orkuráði, var hann 1949--1953 og 1958--1975. Árið 1955 var hann kosinn í atvinnumálanefnd. Í Norðurlandaráði var hann 1957--1963, í bankaráði Landsbanka Íslands 1957--1980, formaður þess 1973--1976, og í Rannsóknaráði ríkisins 1965--1967.
    Einar Olgeirsson kom heim frá námi í Þýskalandi rúmlega tvítugur, fullur áhuga á umbreytingum í þjóðfélagsmálum. Hann stundaði skólakennslu fyrstu árin, var áhrifamikill lærifaðir og neytti þeirra hæfileika sinna áratugum saman í námsflokkum og leshringum um stjórnmál í þágu flokks síns. Hann gekk til liðs við samtök verkalýðsins, var kvaddur þar til forustu og gekk fram ódeigur í kjarabaráttu og vinnudeilum. Í stjórnmálum var hann ávallt framarlega í flokki. Í hörðum deilum lét hann ekki hlut sinn, hreif áheyrendur með mælsku sinni og sannfæringarkrafti. Hann var áhrifamikill flokksforingi og átti manna mestan þátt í kosningasigrum meðan hann var í fararbroddi. Undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar hvatti hann til þess í ræðu og riti að verja stríðsgróða þjóðarinnar til nýsköpunar atvinnutækja sem ný ríkisstjórn dró síðan nafn af. Hann sóttist þó ekki eftir sæti í Nýsköpunarstjórninni, kaus heldur að starfa í nýbyggingarráði að framkvæmd á stjórnarstefnunni.
    Einar Olgeirsson skrifaði mikið um þjóðfélagsmál, aðallega greinar í blöð og tímarit, en samdi einnig nokkur sjálfstæð rit. Hann var hugsjónamaður og barðist af eldmóði og hörku fyrir þeim málstað sem hann helgaði stjórnmálastarf sitt. Utan baráttunnar var hann ljúfmenni og aflaði sér vinsælda óháð stjórnmálum. Með ævistarfi sínu ávann hann sér öruggt rúm í stjórnmálasögu Íslendinga á tuttugustu öld og hans verður lengi minnst sem atkvæðamikils alþingismanns.
    Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Einars Olgeirssonar með því að rísa úr sætum.