Atvinnuþróun í Mývatnssveit

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 14:04:50 (4912)

     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Tómasi Inga Olrich fyrir jákvæðar undirtektir við tillöguna. Ég vil sérstaklega fagna orðum hv. þm. sem ég síðar nefndi, Tómasar Inga Olrich, um stuðning við þetta mál. Ég met það mikils. Hann á sæti ásamt mér í þeirri þingnefnd sem gerð er tillaga um að fái málið til meðferðar og gjörþekkir aðstæður á þessu svæði. Ég er því frekar bjartsýnn á þessari stundu um að þetta mál fái jákvæða afgreiðslu þó að auðvitað muni þingnefnd fjalla um orðanna hljóðan í tillögutexta. Þessi orð tel ég að ég mæli fyrir hönd okkar flm. beggja sem stöndum að þessari till.
    Ég er líka ánægður að hæstv. umhvrh. og hæstv. iðnrh. eru viðstaddir þessa umræðu. Ábyrgð þeirra beggja er mikil varðandi þetta mál eins og staðan er. Það mun reyna á báða þessa ráðherra og ráðuneyti þeirra og ekki síst náttúrlega umhvrn. í sambandi við framhald mála af þessum toga og þá úttekt sem hér er um að ræða þó auðvitað þurfi atvinnumálaráðuneytin að koma inn í það efni.
    Nú styttist í það eins og nefnt hefur verið að sá hópur sem nú er að starfi skili áfangaáliti. Ef ég man rétt þá var gert ráð fyrir því að þær rannsóknir sem var lagt upp með á síðasta ári að tillögu sérstakrar ráðgjafanefndar stæðu til ársins 1994 eða ársins 1995. Það er þess vegna langt frá því að einhverjar lyktir séu komnar í þekkingaröflun varðandi svæðið, en auðvitað þarf að meta stöðuna þegar næsta áfanga er náð í þessum efnum og við bíðum og sjáum hvað þá kemur upp á borðið að því er varðar kísilgúrnám í Mývatni.
    Eins og réttilega hefur verið minnt á er það aðeins einn þáttur mála varðandi atvinnulíf á þessum stað nú. Ég tel langt frá því að Mývetningar þurfi að horfa af einhverri svartsýni öðrum fremur fram á veginn varðandi atvinnuþróun og atvinnumöguleika á þessu svæði. Þar er áreiðanlega unnt að fjölga atvinnutækifærum án þess að það þurfi að rekast á við náttúruverndarmarkmið fyrir þetta svæði. Þetta þarf einmitt hvort tveggja að haldast hönd í hönd á Laxár- og Mývatnssvæðinu öllu.