Fjárframlag til atvinnumála á Suðurnesjum

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 15:35:37 (4931)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Á fundi sínum 13. okt. sl., ákvað ríkisstjórnin að setja á fót starfshóp til að fjalla um atvinnuástand á Suðurnesjum og leiðir til úrbóta. Atvinnuleysi hefur verið þar mjög mikið eins og menn vita þó það hafi ekki vaxið núna á milli mánaða sem neinu nemur og reyndar minnkað nokkuð á stórum

stöðum.
    Í þennan starfshóp voru skipaðir ráðuneytisstjórarnir í forsrn. og iðn.- og viðskrn. ásamt fulltrúum frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum. Af hálfu sambandsins voru tilnefndir Ellert Eiríksson bæjarstjóri, Keflavík, Jón Gunnarsson oddviti, Vogum, og Eðvarð Júlíusson, bæjarfulltrúi í Grindavík.
    Á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í lok október var ítarlega rætt um atvinnumál á Suðurnesjum m.a. á grundvelli ályktana og greinargerða um einstaka þætti þessa máls. Nefndin kynnti sér þessi gögn og átti fundi með fulltrúum nokkurra starfshópa sem höfðu fjallað um atvinnumál á vegum sambandsins og með fulltrúum verkalýðsfélaga og atvinnurekenda á Suðurnesjum. Það fór ekki milli mála að mönnum þótti mestu máli skipta í þessu sambandi að treysta það atvinnulíf sem fyrir er á svæðinu og að uppbygging tengdist sem mest starfandi fyrirtækjum á svæðinu.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 23. nóv. um aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum segir m.a.: ,,Varið skal 500 millj. kr. til aðgerða í atvinnumálum á Suðurnesjum í samstarfi sveitarfélaga, Íslenskra aðalverktaka og annarra fyrirtækja.`` Í framhaldi af þessari yfirlýsingu voru þessi mál rædd í stjórn Sameinaðra verktaka, sem er einn þriggja eigenda Íslenskra aðalverktaka. Stjórnin gerði sérstaka samþykkt um málið sem kynnt var í nefndinni. Samkvæmt henni eru Sameinaðir verktakar tilbúnir að standa að því að Íslenskir aðalverktakar leggi fram fé í formi hlutafjár eða annars eigin fjár til arðsamra fjárfestingakosta, samanlagt allt að 300 millj. kr. Einnig er lagt til að hugsanleg þátttaka Íslenskra aðalverktaka í atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum eigi sér stað með beinni og milliliðalausri þátttöku Íslenskra aðalverktaka í viðkomandi fyrirtækjum fremur en í gegnum sérstakan sjóð eða fjárfestingarfélag. Stjórn Íslenskra aðalverktaka hefur samþykkt tillögur Sameinaðra verktaka um 300 millj. kr. til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum.
    Á undanförnum árum hefur Íslenskum aðalverktökum borist fjöldi beiðna um þátttöku í fyrirtækjum eða hugmyndir um verkefni. Á vegum fyrirtækisins er nú verið að fara yfir þessi mál og önnur sem upp hafa komið að undanförnu. Þetta mun allt taka nokkurn tíma enda nauðsynlegt að vanda undirbúning vel til þess að árangur náist. Sveitarfélögin hafa einnig samþykkt að þau leggi til um 200 millj. kr., líklega á vegum sameiginlegra fyrirtækja þeirra. Þetta er í undirbúningi. Einnig er verið að undirbúa samstarf Aðalverktaka og sveitarfélaganna í þessum málum.
    Nú virðist hafa myndast góð samstaða heimamanna, sveitarfélaga og fyrirtækja, og Aðalverktaka um framgang málsins. Verulegum fjármunum verður ráðstafað til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum og það verður að frumkvæði heimamanna. Það er á þeirra ábyrgð að skipuleggja þau verkefni og efla þau fyrirtæki sem geta staðið undir varanlegri atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum.
    Af þessum orðum sést að ríkisstjórnin hefur staðið við þær yfirlýsingar sem hún gaf. Fullyrðingar um annað fá ekki staðist. Því hefur aldrei verið haldið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar að það hafi staðið til að það kæmu bein peningaframlög úr ríkissjóði í þessa 500 millj. kr. ,,púlíu``. Það lá alltaf ljóst fyrir hvernig hún yrði mynduð. Hins vegar kom fram að vegna framlags Íslenskra aðalverktaka til þessa verkefnis væri ljóst að arður sá sem gert hafði verið ráð fyrir að fyrirtækið greiddi í ríkissjóð mundi minnka. Að því leyti til mundi ríkissjóður með óbeinum hætti leggja fjárframlag til þessara framkvæmda.
    Ég tel miklu skynsamlegra að haga útdeilingu þeirra fjármuna sem Íslenskir aðalverktakar og sveitarfélögin leggja fram til þess að stuðla að aukinni vinnu á Suðurnesjum með þeim hætti sem þarna er lagt til en að stofnaður verði sérstakur sjóður í því skyni. Um það er sátt við aðilann sem á að leggja fram peningana, Aðalverktaka, og ég lít þannig á að það sé einnig sátt við heimamenn á svæðinu. Meginatriðið er því ekki, eins og ég hygg að hafi vakað fyrir málshefjanda, að hefja pólitíska umræðu um þetta mál núna. Þetta mál er komið í réttan farveg og heimamenn munu hafa mest um það að segja í hvaða farvegi málið verður framvegis.