Fjárframlag til atvinnumála á Suðurnesjum

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 15:59:03 (4940)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Því miður hef ég ekki misskilið neitt og það er augljóst að hér á ekkert að gera þrátt fyrir þau fyrirheit sem bæði ég og aðrir geta staðfest að lágu svo sannarlega laus á tungu hér fyrr í vetur og sveitarstjórnarmenn telja sig hafa fengið loforð sem hafa verið svikin. Samstarf sem byggir á því að aðrir leggja eitthvað til, fyrirtæki sem byggir á hernum eða jafnvel sveitarfélög skili framlagi en ríkisstjórnin og ríkið ekki neinu, það er auðvitað ekki nokkurt samstarf og ekkert til að guma af fyrir ríkisstjórnina í því efni. Það er líka sagt að aðgerðir taki tíma. Það er ekki eins og þetta ástand hafi orðið ljóst í gær heldur er miklu lengra síðan eins og raunar sumir stjórnarþingmenn hafa nefnt og það er verið að drepa þessu máli á dreif eina ferðina enn en það er ekki hægt. Málið er í nefnd og það er heldur ekki hægt. Ég sé ekki betur en yfirlýsing sem samþykkt var samhljóða á fundi stjórnar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum þann 17. sept. sl. sé í fullu gildi og ég styð þá yfirlýsingu frá sveitarstjórnarmönnum, en í þessari ágætu yfirlýsingu segir, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn SSS mótmælir harðlega hvernig ríkisstjórn Íslands gengur fram hjá Suðurnesjum við niðurröðun framkvæmda um landið til að mæta vaxandi atvinnuleysi. Hvorki er beint verkefnum til Suðurnesja eða reynt að mæta mjög miklu atvinnuleysi kvenna. Áherslur ríkisstjórnarinnar beinast að því er virðist fyrst og fremst að því að leysa vanda verktaka og að vegabótum annars staðar en á Suðurnesjum. Stjórn SSS krefst þess að ríkisstjórnin taki mál Suðurnesja sérstaklega fyrir og komi í framkvæmd verkefnum á Suðurnesjum sem bæti atvinnuástandið þar.``
    Það er kannski huggun harmi gegn að aðrir hafi verið sviknir líka en það er léleg huggun fyrir Suðurnesin.