Námsráðgjöf og starfsfræðsla

106. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 10:34:44 (4943)


     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Svar menntmrh. við 1. lið fsp. er svohljóðandi:
    Í grunnskólum eru stöðugildi í námsráðgjöf og starfsfræðslu 6,19 á yfirstandandi skólaári. Hafa ber í huga í þessu sambandi að víðast hafa skólar og/eða fræðsluskrifstofur skipulagt og samræmt náms- og starfsfræðslutilboð fyrir grunnskólanemendur þannig að náms- og starfsfræðslu er einnig sinnt af bekkjar- eða fagkennurum, til að mynda samfélagsfræðikennurum, aðstoðarskólastjórum og skólastjórum. Í framhaldsskólum eru stöðugildi í náms- og starfsráðgjöf 17,85 á yfirstandandi skólaári.
    Varðandi 2. lið fsp. er það að segja, að árið 1990--1991 voru ekki stöðugildi í náms- og starfsráðgjöf í grunnskólum nema 1,28 stöðugildi í starfsfræðslu í Austurlandsumdæmi. Árið 1991--1992 voru stöðugildi í grunnskólum 1,10 í starfsfræðslu í Austurlandsumdæmi og 0,6 stöðugildi í Norðurlandsumdæmi vestra sem tilraunaverkefni. Árið 1990--1991 voru 16,75 stöðugildi í náms- og starfsráðgjöf við framhaldsskólana. Árið 1991--1992 voru 17,85 stöðugildi í náms- og starfsráðgjöf við framhaldsskólana.
    3. liður fsp. lýtur að viðhorfi menntmrh. til tillagna nefndar um starfsráðgjöf og starfsfræðslu frá 11. apríl 1991. Um það er þetta að segja að menntmrn. lítur þær tillögur jákvæðum augum þó að einstakar tillögur geti verið álitaefni og umræðugrundvöllur. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að á aðhaldstímum eins og við lifum nú eru því settar skorður hversu unnt er að fjölga störfum í skólakerfinu og það markar því eðlilega þrengri ramma en tillögur þessarar nefndar segja til um. Það er einnig rétt að minna á að nefnd um mótun menntastefnu hefur fjallað um tilhögun náms- og starfsfræðslu og eins og kunnugt er, þá hefur hluti af áliti nefndarinnar þegar verið kynntur.