Kostnaður við löggæslu á skemmtunum

106. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 10:40:45 (4945)

     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 9. þm. Reykv. að bera fram á þskj. 463 fsp. til dómsmrh. um kostnað við löggæslu á skemmtunum. Bakgrunnur málsins er sá að í núgildandi lögum um

lögreglumenn er kveðið á um það í 8. gr. þeirra laga að lögreglustjóra sé heimilt að binda skemmtanaleyfi því skilyrði að lögreglumenn verði á skemmtistað og skal leyfishafi greiða kostnað af þeirri löggæslu samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Þær reglur hafa verið settar og er að finna í reglugerð nr. 587/1987 og í 8. gr. þeirrar reglugerðar er nákvæmlega tilgreint hvernig þessar reglur eiga að vera. Þær eru annars vegar þannig að skemmtanahaldari á að endurgreiða launakostnað sem hlýst af starfsemi þeirra umfram það sem eðlilegt má telja. Og eðlilegt er skilgreint í 8. gr. þannig að að jafnaði sé miðað við að tveir tiltækir lögreglumenn séu við almenn löggæslustörf í nágrenni skemmtistaðar sem ríkissjóður ber allan kostnað af þannig að skemmtihaldari ætti þá að greiða allan löggæslukostnað umfram tvo lögreglumenn. Og í öðru lagi, ef skemmtun stendur lengur en til kl. 23.30, þá greiðir skemmtanahaldari allan löggæslukostnað þannig að reglurnar eru skýrar og samræmdar. Í svari dómsmrh. við fsp. minni á þskj. 132 fyrr á þessu þingi um löggæslu á skemmtunum segir að þessi reglugerð sé fyrsta heildstæða reglugerðin sem sett hafi verið um þetta málefni hér á landi. Því kemur það óvart að í því svari sem ég gat um kemur greinilega fram að framkvæmdin er með mjög mismunandi hætti um landið svo að unnt er jafnvel með nokkrum rökum að segja að lög séu ekki þau sömu á landinu. Því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. dómsmrh. eftirtalinna spurninga á þskj. 463:
  ,,1. Hvers vegna er fyrirmælum 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 587/1987 um að sá sem fyrir skemmtun stendur skuli endurgreiða þann kostnað sem leiðir af aukinni löggæslu vegna skemmtunar umfram það sem eðlilegt má telja, þar á meðal allan löggæslukostnað ef skemmtun er opin gestum eftir kl. 23.30, ekki framfylgt í 11 lögregluumdæmum, þar á meðal í Reykjavík, heldur einungis í 17 lögreglumdæmum á landsbyggðinni?
    2. Hyggst dómsmálaráðherra samræma reglur um kostnað við löggæslu á skemmtunum þannig að sömu reglur gildi um landið allt og ef svo er, hvernig verða þær reglur?
    3. Hve mikið af kostnaði við löggæslu í Reykjavík stafar af starfsemi skemmtistaða, þar með talið vínveitingastaða?``