Gjaldþrot einstaklinga

106. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 10:51:09 (4949)

     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að spyrja hæstv. dómsmrh. um það hversu margir einstaklingar hafa verið lýstir gjaldþrota á árinu 1992. Það er ljóst að á síðustu árum hafa um 1.000 Íslendingar verið lýstir gjaldþrota árlega og hefur fjöldinn vaxið með hverju ári. Nú hefur verið gerð kerfisbreyting sem dregur úr gjaldþrotabeiðnum þar sem leggja þarf fram 150 þús. kr. til þess að meðferð eigi sér stað. Því væri kannski réttara að spyrja eftir því hversu mörg árangurslaus fjárnám hefðu verið höfðuð á síðasta ári.
    Mér ógna þau vindaský sem nú blasa við mörgum einstaklingum og fjölskyldum. Við vitum að yngra fólkið er skuldsett og þolir alls ekki þann vítahring sem samdráttur og kreppa valda. Aðgerðir ríkisvalds getur ráðið úrslitum hvorum megin hryggjar fólk lendir. Við vitum að á undanförnum árum hafa íslenskir stjórnmálamenn opnað fyrir nýjar skuldaleiðir. Má þar nefna krítarkort og stórlega hækkuð húsnæðislán. Ungt fólk sem kaupir íbúð á húsbréfum stendur frammi fyrir því að ríkisstjórnin hefur raskað öllum áætlunum með skertum vaxtabótum og fleiru.
    Annars tel ég að stjórn og stjórnarandstaða eigi ekki að þrátta um þennan vanda heldur horfa fram og leita lausna. Vinnan er númer eitt, tvö og þrjú. Í þau spor að missa atvinnu sína er erfitt að setja sig því vinnan er forsenda alls. Nú blasir þessi harmleikur við mörgum, ekki síst ungu fólki undir fertugsaldri sem þolir slíkt alls ekki efnahagslega.
    Nú eru margar fjölskyldur staddar í þessum vítahring. Tekjur minnka, lánin hækka, eignin fellur í verði og vinnan bregst. Hér er um þjóðfélagsvanda að ræða sem þarf að taka upp á víðtækari vettvangi en ríkisstjórnin má ekki keyra svo blint að hún skynji ekki þessa hættu: persónulegt gjaldþrot er örbirgð og hin nýja fátækt á Íslandi. Einstaklingurinn ber auðvitað ábyrgð á þessu að einhverju leyti, en við verðum að gera okkur grein fyrir því, alþingismenn, að samfélagið gerir það einnig.
    Ég spyr hæstv. dómsmrh.: Hversu margir voru lýstir gjaldþrota á síðasta ári?