Kolbeinsey

106. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 11:00:45 (4953)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Þessi þál. var send Vita- og hafnamálastofnun til frekari vinnslu í júní sl. en það var hlutverk þeirrar stofnunar fyrst og fremst að vinna úr úrvinnslu gagna sem aflað var á árunum 1989 og 1990 við eyjuna. Þessari úrvinnslu er ekki lokið en stefnt að því að henni ljúki nú í vor. Þá kemur í ljós hvort frekari rannsókna verði þörf af hendi stofnunarinnar. Vita- og hafnamálastofnun mun standa undir kostnaði við þau verkefni sem verða á þessu ári vegna Kolbeinseyjar og eru á verksviði stofnunarinnar.
    Í þál. er kveðið á um að unnið skuli að áætlun um varanlega styrkingu eyjarinnar þannig að hún fái sem lengst staðist ofan sjávar. Áætlunin skuli taka mið af hagnýtingu eyjarinnar í öryggis- og vísindaskyni, svo sem með uppsetningu sjálfvirkrar veðurathugunarstöðvar og jarðfræði- og haffræðirannsóknum og unnin í samráði við viðkomandi nefndir Alþingis.
    Forveri minn í starfi, hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, var mikill áhugamaður um þessi mál. Eftir að hann lét af embætti samgrh. hefur verið unnið að þessum málum áfram. En eins og honum er kunnugra en kannski öllum öðrum er þetta mál síður en svo einfalt og nauðsynlegt að athuga mjög vendilega hvaða skref eru stigin þannig að það fé megi nýtast sem til þessara verkefna er veitt en þó ekki sparað svo að fjárveitingar komi ekki að því haldi sem ætlast er til.