Kolbeinsey

106. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 11:02:49 (4954)

     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin. Ég hefði gjarnan viljað að þetta mál væri lengra á veg komið og kemur mér nokkuð á óvart að það skuli til að mynda þurfa þetta langan tíma til að vinna úr þeim gögnum sem aflað var á árunum 1989--1990. Þá er það auðvitað alveg ljóst að Vita- og hafnamálastofnun gerir ekki stóra hluti með rekstrarfé sínu í þessum efnum. Ef þarna ætti eitthvað að gerast sem marktækt væri hefði auðvitað þurft að leggja til sérstaka fjárveitingu í því sambandi.
    Vilji Alþingis er alveg skýr og ótvíræður í þessu efni. Þetta er reyndar önnur þáltill. á tíu árum sem samþykkt var í þessa veru. Það má e.t.v. verða okkur til umhugsunar hvort ekki sé nauðsynlegt að skilyrða og afmarka betur vilja þingsins með slíkum ályktunum. T.d. setja framkvæmdarvaldinu ákveðin tímamörk þannig að ekki sé drollað við málið.
    Ég vil einnig leggja áherslu á það að í tillögunni var talað um tækjakost og rannsóknaútbúnað sem koma skyldi fyrir í eyjunni eða reyna að hagnýta legu hennar í því skyni. Það er ekki út í bláinn. Það er ekki aðeins vegna þess að menn trúa því að eyjan geti haft hagnýtt gildi sem slík. Það er líka vegna þess að það er alveg ljóst að slíkur tækjabúnaður og slík nýting eyjunnar styrkir stöðu Íslendinga í hinu hafréttarlega tilliti. Það má minna á að Norðmenn beittu því óspart í deilum um Jan Mayen á sínum tíma að þeir hefðu stundað veðurathuganir frá eyjunni og töldu það jafngilda hagnýtingu hennar í efnislegum skilningi og þar með styrkja réttarstöðu þeirra hvað alþjóðlegan rétt varðaði.
    Ég vil sem sagt hvetja hæstv. samgrh. til að slá nú í trippin og reka þau aðeins hraðar. Það er því miður þannig að enginn veit hvenær stórslys gæti orðið ef ekkert verður að gert með Kolbeinsey. Menn óttast jafnvel að hún gæti horfið þess vegna á einum ísavetri eða brotnað niður. Þá væri mikill skaði skeður.
    Hæstv. forseti. Ég hefði gjarnan viljað sjá að rösklegar væri að þessu unnið. Hæstv. ráðherra hefur stuðning Alþingis til þess. Hann liggur fyrir í þessari ályktun og ég er sannfærður um að ef nauðsyn reynist á einhverjum fjárveitingum í þessu skyni, þá er hægt að fá heimildir fyrir þeim á þinginu hvenær sem er.