Strandferðir

106. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 11:10:56 (4958)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Lokaorð hæstv. samgrh. voru mjög athyglisverð. Hann telur fjárhagslegt svigrúm til að geta tekið upp reglulegan snjómokstur milli Norðurlands og Austurlands í næstu viku. Út af fyrir sig fagna ég því en hlýt að minna á að staðir á Vestfjörðum eru samgöngulausir og hafa verið það undanfarnar margar vikur, svo mánuðum skiptir. Sem dæmi get ég nefnt Súgandafjörð þar sem ekki hefur verið bílfært mjög lengi og mokstursdagar fallið niður vegna óveðurs. Þegar tekist hefur að moka hefur verið opnað mjög seint að degi eða jafnvel eftir kvöldmat.
    Mig langaði að benda á að nokkrir staðir á Vestfjörðum koma mjög illa út úr þessari breytingu, Bíldudalur, Súgandafjörður og Norðurfjörður. Þarna er verið að velta kostnaði af ríkinu yfir á íbúa þessara staða. Sem dæmi get ég nefnt fjölskyldu sem flutti sína búslóð til Súgandafjarðar frá Reykjavík. Hún varð að flytja hana fyrst til Ísafjarðar og greiða þangað samkvæmt almennri gjaldskrá. Síðan varð hún að flytja þá búslóð frá Ísafirði til Súgandafjarðar á eign vegum og greiða allan kostnað úr eigin vasa. Þetta er þjónustan sem hæstv. samgrh. úr Sjálfstfl. býður landsbyggðarmönnum upp á á afskekktum stöðum eða stöðum sem eru samgöngulega einangraðir. Þeir eiga að borga sjálfir mismuninn frá næstu höfn til heimastaðar. Þetta er byggðastefna Sjálfstfl. í hnotskurn.