Vistfræðileg þróun landbúnaðar á Íslandi

106. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 11:26:17 (4968)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er víða unnið að þeirri úttekt, eins og segir í þál. sem samþykkt var 16. maí sl. Það kemur m.a. glöggt fram á ráðunautafundi sem Búnaðarfélag Íslands og Rannsóknastofnun landbúnaðarins efndu til og stendur nú yfir. Sl. þriðjudag voru flutt ellefu erindi undir dagskrárliðnum ,,Umhverfisvænn búskapur``. Á öðrum dögum er einnig vikið að ýmsu því sem varðar umhverfi, gróðurvernd og landgræðslu. Þannig var deginum í gær eingöngu varið til landgræðslu og gróðurverndarmála.
    Í greinargerð sem Rannsóknastofnun landbúnaðarins sendi landbn. í tengslum við þáltill. segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Reynsla fjölmargra þjóða hefur sýnt að aðlögun landbúnaðar að umhverfiskröfum verður einkum með leiðbeiningum og fræðslu. Þróa þarf leiðir til að draga úr umhverfisáhrifum áður en settar eru fram kröfur í lögum og reglugerðum. Öflug rannsóknastarfsemi og þekking er mjög mikilvæg í þessu sambandi. Eftirfarandi þættir geta öðrum fremur örvað aðlögun landbúnaðar að breyttum kröfum: Rannsóknir og þróun aðferða til að draga úr umhverfisáhrifum, leiðbeiningar og fræðsla, að tekið verði mið af umhverfissjónarmiðum við framleiðslustýringu í landbúnaði, skipulag landnýtingar og efnahagslegir hvatar til aðlögunar.``
    Ég hef falið Þorsteini Tómassyni, forstjóra Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, að gera tillögur um það hvernig best verði staðið að því að draga fram þær niðurstöður sem beðið er um í ályktuninni. Má kannski segja að til skilnings á henni sé e.t.v. betra að snúa orðunum við. Hér stendur ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt á að hve miklu leyti íslenskur landbúnaður uppfyllir þær kröfur sem gera verður til hans með tilliti til sjálfbærrar þróunar.``
    Við þurfum kannski að einbeita okkur að reyna að skilja að hvaða leyti landbúnaðurinn uppfyllir ekki þær kröfur ef svo er og reyna þá að bæta úr því.
    Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur þetta mál til meðferðar. Hún mun setja sig í samband við aðrar stofnanir sem þessi mál varða. Ég skal ekki undan því skorast að ég hefði getað rekið meira á eftir þessari ályktun en ég hef gert. Ég hef beðið um að það verði unnið að henni af fullum krafti eftir orðanna hljóðan. En sú vinna sem hún fjallar um er öll í fullum gangi eins og hv. þm. er kunnugt.