Vistfræðileg þróun landbúnaðar á Íslandi

106. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 11:31:37 (4970)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það sem ég hef lagt áherslu á --- svo það komi alveg skýrt fram --- við forstjóra Rannsóknastofnunar landbúnaðarins er að reyna að skilgreina nákvæmlega hversu vítt hann vill fara í sambandi við þessa úttekt. Það er auðvelt að halda þannig á málinu að það flæði út um víðan völl. Ég álít því að frumskilyrði sé að reyna að takmarka sig fremur en fara vítt yfir. Ég get í því sambandi vitnað til þess að í umsögn frá Landgræðslu ríkisins um þetta erindi eru taldar upp tólf stofnanir sem rétt skuli að hafa samband við og væri auðvelt að nefna fimm eða tíu til viðbótar ef maður vildi svo við hafa. Ég held að vandamálið sé að reyna að takmarka sig en skila þó greinargóðri og fullnægjandi úttekt í samræmi við vilja Alþingis.