Atvinnuþróun í Mývatnssveit

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 13:11:00 (4979)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegur forseti. Ég var ekki viðstaddur þegar umræður fóru fram um þessa tillögu en það kemur manni mjög á óvart að hæstv. umhvrh. flytji tillögu um að þessu máli sé vísað frá umhvn. Satt að segja á ég dálítið erfitt með að átta mig á hver sé tilgangurinn. Það er eins og það sé eitthvert stórmál í augum ráðherrans að ekki verði fjallað um þessa tillögu í umhvn. Nú hefur það komið fram hjá tillögumanni, hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, að um þetta svæði gilda sérstök lög eins og við vitum. Það hefur einnig verið rætt í umhvn. hvernig megi tengja saman varðveislu þessara sérstöku svæða og atvinnuþróun byggðarlaganna.
    Í umhvn. hefur verið mjög góð samvinna. Síðan hún var sett á laggirnar tel ég að þar hafi verið að mörgu leyti fyrirmyndarvinnubrögð miðað við það sem maður kynntist oft áður í nefndum. Ég hafði ekki starfað í nefndum um nokkurt árabil fyrr en núna fyrir tveimur árum síðan og umhvn., sem er ný nefnd í þinginu, hefur starfað mjög vel. Þar hafa flokkalínur eða línur milli stjórnar og stjórnarandstöðu ekki verið mjög skýrar heldur hafa menn reynt að vinna að málum eftir því sem þau hafa komið fyrir. Ég vildi

spyrja að því hvort þessi tillaga hæstv. umhvrh. hafi verið rædd við formann umhvn. og þá sem veita nefndinni forustu. Er eitthvert samráð milli ráðherrans og formanns og varaformanns nefndarinnar um að leggjast gegn því að þessi tillaga fari til umhvn.? Ég vek athygli á því að umhvn. er ný nefnd í þinginu og það er verið að skapa dálítið hættulegt fordæmi ef þróun á þeim svæðum sem sérstaklega á að vernda, eins og Mývatnssvæðið, fær ekki að vera til umfjöllunar í umhvn. þingsins. Það kemur mér mjög í opna skjöldu að það er orðið deilumál í þinginu að verða við tillögu flm. og áður en gengið verður til atkvæðagreiðslunnar óska ég eftir því að formaður eða varaformaður umhvn. tjái sig um þetta mál.