Atvinnuþróun í Mývatnssveit

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 13:28:43 (4986)

     Rannveig Guðmundsdóttir (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegur forseti. Ég kveð mér ekki hljóðs til að óska eftir því að þetta mál komi í félmn. og vil taka það fram strax. Vegna þess hvernig umræðan hefur þróast um að óeðlilegt sé að skiptar skoðanir séu um það hvert mál fari og það eigi að lúta vilja flm. í því efni vil ég minna á að fyrir rúmu ári flutti félmrh. mál unnið undir forræði félmrn. í fullkomnu samkomulagi ríkisstjórnarinnar um starfsmenntun í atvinnulífinu og skildi málið fara til félmn. Við það var gerð athugasemd af hv. þm. sem nú leggur mikla áherslu á að málið skuli fara í þá nefnd er hann kýs, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Ósk hans var sú að þar sem hann taldi að starfsmenntun ætti heima í menntmrn. og menntmn. ætti málið að fara þangað. Þá

áttu sér stað umræður um það einmitt eins og nú fara fram. Eftir að sú er hér stendur bauðst til að senda málið frá félmn. til menntmn. þannig að fullt samráð yrði haft um framgang þess var á það sæst í atkvæðagreiðslu í þinginu að málið færi þangað er félmrh. óskaði og taldi eðlilegt. Þetta er ábending mín, virðulegur forseti.