Atvinnuþróun í Mývatnssveit

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 13:46:04 (4994)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. umhvrh. fullyrti áðan að ég væri ósannindamaður. Það eru nokkuð stór orð og merkilegt hvernig ráðherrann kýs að tala í þingsalnum. Rökin voru þau að ég hefði greint frá því að málið hefði ekkert verið rætt við hv. þm. Gunnlaug Stefánsson, formann umhvn. og flokksbróður ráðherrans. Ég ætla að vona að hæstv. ráðherra fari betur með sannleikann á öðrum vettvangi en hann gerir í þessu máli. Ég fullyrti ekkert um það mál. Ég spurði hv. þm. Gunnlaug Stefánsson hvort málið hefði verið rætt við hann. Hann kom hér upp, flutti nokkuð langa ræðu og svaraði ekki þessari spurningu. Hann kaus að skýla sér á bak við þögnina í því hvað snertir viðræður við hann um málið. Ég dró þá ályktun að fyrst þingmaðurinn sjálfur vildi ekki greina frá því að málið hefði verið rætt við hann hefði það ekki verið gert. Síðan kemur hæstv. umhvrh. upp og upplýsir það, sem er auðvitað mjög merkilegt í ljósi ræðu hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar, að þetta mál er svo mikilvægt að það var rætt sérstaklega á þingflokksfundi Alþfl. í gær. Það var tekið fyrir sem sérstakt viðfangsefni á þingflokksfundi hjá Alþfl. í gær. Hvers vegna greindi hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson ekki frá því? Var það vegna þess að þessi umræða í þingflokknum var eitthvert vandræðamál? Var það vegna þess að það var ágreiningur um málið í þingflokki Alþfl.? Það er fyrst núna þegar langt er liðið á þessa umræðu að það dettur út úr hæstv. umhvrh. að þetta er flokksmál í Alþfl. Það er búið að gera það að flokksmáli í Alþfl. til hvaða nefndar þessi þáltill. á að fara. Hæstv. fjmrh., sem allt í einu er vaknaður, er alveg hissa á því og spyr hvað menn séu að segja. Þetta er kannski líka flokksmál í Sjálfstfl., hv. þm. Geir H. Haarde? Er kannski líka búið að binda þingflokk Sjálfstfl. í þessu máli? Er þetta orðið slíkt stórmál að það sé búið að gera þetta að flokksmáli í stjórnarflokkunum? ( SJS: Atvinnuspursmál.)
    Ég verð að segja það með allri virðingu fyrir hv. þm. Guðna Ágústssyni að þessi umræða hefur verið nokkuð fróðleg. Hún hefur leitt það í ljós að a.m.k. annar ríkisstjórnarflokkanna er búið að gera það að flokksmáli hvert þessari tillögu er vísað. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með gangi þessa máls í þinginu í ljósi þess hvert upphafið er.
    Ég vil svo ítreka það að lokum að sá er munurinn, hv. þm. Björn Bjarnason, á þessu máli og öðrum atvinnuþróunarmálum að þetta er þróun á sérstöku svæði. Það gilda sérstök lög um þetta svæði og þau lög heyra undir umhvrh.