Fjarvera heilbrigðisráðherra

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 14:23:23 (5005)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég er sammála hæstv. forseta um að það er nauðsynlegt að ræða þetta mál á öðrum vettvangi. Ég gerði mér líka grein fyrir því að það var nokkuð viðkvæmt að hefja máls á þessu hér í þingsalnum og velti því nokkuð fyrir mér hvort maður ætti að gera það því að það væri í sjálfu sér mjög auðvelt að koma upp og halda svipaðar ræður eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson flutti hér.
    Ástæðan fyrir því að ég ákvað hins vegar að gera það var að þegar ég var að keyra til þings í dag, þá dundu í hádegisútvarpinu auglýsingar um enn nýjan fund hæstv. heilbrrh. í kvöld þar sem auglýst var hvað eftir annað að hann ætlaði líka í kvöld að mæta á opnum fundi á vegum SÍBS og svara þar fyrirspurnum og menn voru hvattir til þess að mæta. Það hefur því gerst ekki bara í morgun að ráðherrann kemur sjálfur fram rétt fyrir kl. 8 og lýsir því yfir í Ríkisútvarpinu að hann sé í fullri vinnu í ráðuneytinu og er auglýstur gærkvöldi á opnum fundi Alþfl. í Garðabæ, heldur er hann líka auglýstur hvað eftir annað í kvöld, ekki á vegum Alþfl. heldur á vegum SÍBS á opnum fundi. Og þá vona ég að hv. þm. Össur Skarphéðinsson virði manni það að velta því fyrir sér hvað sé hér að gerast. Þetta eru tveir fyrstu þingdagarnir þar sem ráðherra óskar eftir fjarvistum vegna veikinda. Ég hef enga löngun til þess að leggja stein í götu hæstv. heilbrrh. eða koma í veg fyrir það að hann geti náð heilli heilsu. Ég óska honum góðs bata. Og menn mega alveg ef þeir vilja reyna að gera þessa umræðu hér tortryggilega. Hitt er þó staðreynd sem blasir við að ráðherra, sem í gær fékk leyfi frá þingstörfum í hálfan mánuð vegna veikinda og tók hér inn varamann, er á fullu úti í þjóðfélaginu, haldandi áróðursfundi, bæði á vegum síns eigin flokks og umfjöllunarfundi á vegum fjöldasamtaka, mætir í Ríkisútvarpið til þess að tilkynna það að hann sé á fullu í ráðuneytinu og menn mega ef þeir vilja gagnrýna það að okkur finnist það nokkuð undarlegt. Það er rétt að í bréfinu stendur að hann óski leyfis frá reglulegum þingstörfum. Það er að vísu nokkuð sérkennilegt orðalag. En ég vona að heilbrrh. verði þá jafnreiðubúinn til þess að standa fyrir máli sínu og verja það í þingsölum hér á næstu tveimur vikum eins og hann hefur á síðustu 24 klukkustundum verið reiðubúinn að mæta í Ríkisútvarpinu, mæta á opnum fundi Alþfl. og mæta á opnum fundi í kvöld.