Fjarvera heilbrigðisráðherra

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 14:26:41 (5006)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Mér þykir vænt um að heyra þær bataóskir sem komu frá formanni Alþb. og veit að þær eru mæltar af heilum huga og mun flytja þær til hæstv. heilbrrh. En ég vil lesa það sem stendur í þessu bréfi, virðulegi forseti. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Vegna veikinda getur heilbr.- og trmrh. ekki mætt til reglulegrar setu á Alþingi.``
    Það er rétt hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að þetta er óvenjulegt vegna þess að lasleiki heilbrrh. er næsta óvenjulegur. Hann handleggsbrotnaði eins og menn vita. Hann er spenntur miklum megingjörðum á framhandlegg sínum og þetta gerir það að verkum að langar setur eru næsta erfiðar fyrir hann. En hins vegar felst líka í þessu að hann mun ekki skorast undan því að koma hér og eiga orðastað við þingmenn um sínar aðgerðir ef eftir því er óskað. Það sem ég tók óstinnt upp gagnvart hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni var að ég taldi að hann væri að bregða honum um kjarkleysi. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, það er enginn þingmaður í þessum sölum sem á það minna skilið en hæstv. heilbrrh. Hann hefur vissulega sætt árásum og áföllum út af sínum aðgerðum, en hann hefur verið boðinn og búinn til þess að útskýra þær og það hefði í sjálfu sér verið ósköp auðvelt fyrir hann við þessar kringumstæður að taka sér fullkomið sjúkrafrí og reyna að ná heilsu sinni. En hann hefur hins vegar orðið við óskum um að koma í útvarpsþætti og ræða við fólk. Og ég ítreka að það felst í bréfi hans að hann er alls ekki að hunsa þingskyldu sína eins og hér var orðað af öðrum hv. þm. Hann hefur færst undan því eftir að hafa rætt við formann síns þingflokks að sitja hér reglulega en hann er reiðubúinn til þess að koma og ræða við þingheim.