Flutningur ríkisstofnana

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 14:42:33 (5009)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að taka undir síðustu orð hv. 1. flm. frv. um að það náist samstaða um að vísa þessu máli til allshn. en vissulega vekur það áhyggjur hversu miklu er hlaðið á þá nefnd. Hún á fram undan mikil og stór mál sem koma frá dómsmrh. en vonandi tekst þeim að leysa þau vel af hendi. Þar með kem ég að því að ég get ekki látið hjá líða að minnast aðeins á það hvernig umræður hafa þróast í dag. Ég verð að lýsa því að ég er eiginlega alveg gáttuð á þróun mála og finnst hún verulega umhugsunarverð og spurning hvort bæði forsætisnefnd og þingflokksformenn ættu ekki að taka sig á og sjá til þess að umræður af þessu tagi eigi sér ekki stað í þingsölum. Þegar ég hugsa um þá deilu sem hér átti sér stað um það hvert fyrsta málinu sem var til umræðu í dag, um atvinnuþróun í Mývatnssveit, skyldi vísað, þá er það mál af því tagi sem hefði auðvitað átt að vera búið að ræða fyrir fram og finna lausn á deilunni. Það er algjör óþarfi að færa ágreiningsmál af þessu tagi í þingsali. Mér finnst það sannast að segja ekki Alþingi sæmandi að eyða svona löngum tíma í slíkt mál.
    Sama gildir um hegðun heilbrrh. Ég get tekið undir það að mér finnst hún að nokkru leyti óeðlileg en í rauninni ætti að vísa þessu til stjórnar þingsins. Mér finnst að umræða um hans hegðun eigi ekki heima í þingsölum svo framarlega sem hún er ekki komin á alvarlegt og hættulegt stig sem þingið þurfi að taka afstöðu til. Mér finnst þetta allt saman mjög umhugsunarvert og spurning hvort við ættum ekki að reyna að bæta okkur í vinnubrögðum af þessu tagi.
    Ég ætla að víkja að frv. sem er til umræðu en ég er annar flm. þess. Þetta mál var lagt fram á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga og dagaði uppi í nefnd ef ég man rétt. (Gripið fram í.) Nei, það var aldrei mælt fyrir því. Það er rétt. Það var mikið af frv. og tillögum þingmanna sem ekki náðist að mæla fyrir á síðasta þingi. Þar af leiðandi er þetta mál að koma til umræðu í fyrsta sinn. Síðan þetta mál var kynnt hefur það gerst að forsrh. skipaði nefnd til þess að koma með tillögur um flutning ríkisstofnana út á land. Það breytir því ekki að megintilgangur frv. er sá að stjórnvöld setji sér ákveðin markmið í flutningi ríkisstofnana
     Sannleikurinn er sá að um allnokkurt árabil hefur það verið markmið ríkisstjórna að flytja ríkisstofnanir út á land en þar hefur fátt eitt gerst. Eitt af fáum dæmum sem við höfum um flutning ríkisstofnana er Skógrækt ríkisins. Ég held að menn séu nokkuð sammála um að sá flutningur hafi tekist vel. Það vill svo til að ég á sæti í þeirri nefnd sem er að vinna að tillögum um flutning ríkisstofnana. Þar er verið að athuga ýmiss konar möguleika. En auðvitað er ekki hægt að leyna því að upp kemur ýmiss konar vandi. Flutningi ríkisstofnana fylgir ýmiss konar vandi. Það verður að velta fyrir sér kostnaðinum. Það verður að velta því fyrir sér hver tengsl stofnana eru við umhverfið og hvort þau verði eins góð ef stofnanir eru fluttar og síðast en ekki síst snýr flutningur ríkisstofnana mjög að því fólki sem þar vinnur. Það er því margt sem þarf að velta fyrir sér þegar verið er að huga að flutningi ríkisstofnana út á land.
    Ég tel mig ekki geta sagt annað um störf nefndarinnar en það að hún vinnur nokkuð jafnt og þétt og er að kanna ýmsar stofnanir og hefur aflað sér mikilla gagna og upplýsinga m.a. erlendis frá. Við höfum verið að kynna okkur hvað aðrar þjóðir hafa gert í þessum efnum. Það er svolítið merkilegt að upplýsingarnar að utan eru býsna mótsagnakenndar. Við fengum greinargerð frá Noregi þar sem menn eru heldur tregir og telja reynsluna ekki góða en í Svíþjóð þar sem töluverður flutningur hefur átt sér stað á ríkisstofnunum hefur það tekist vel. Það er merkilegt að velta því fyrir sér hvað veldur. Eru það samgöngur? Hafa ekki réttar stofnanir verið fluttar eða hvað liggur á bak við? Það eigum við eftir að kanna betur.
    Ég tel mér ekki heimilt að upplýsa annað um störf nefndarinnar, hvorki hvaða stofnanir er verið að ræða um eða hvernig málin standa. En því er auðvitað ekkert að leyna að á tímum eins og þessum þegar atvinnuleysi fer vaxandi veldur það vissum ugg hjá starfsmönnum þegar það kemst á kreik að verið sé að huga að flutningi viðkomandi stofnunar. Við getum spurt okkur að því hvort þrengingartímar séu rétti tíminn til þess að flytja slíkar stofnanir. Við þingmenn Reykjavíkur hljótum að velta því fyrir okkur hvað mundi gerast hér ef stofnanir yrðu fluttar út á land.
    Engu að síður er ég sammála þeirri stefnumörkun að það beri að reyna að dreifa þjónustunni og dreifa stofnunum eftir því sem hægt er og byggja upp fleiri sterka kjarna á landinu. Það er auðvitað hægt að fara ýmsar leiðir í þessu. Þær geta verið misjafnar fyrir hinar mismunandi stofnanir. Við höfum dæmi um það t.d. frá Hafrannsóknastofnun, sem hefur verið að byggja upp útibú úti á landi, og sama gegnir um

Byggðastofnun. Það mætti hugsa sér fleiri stofnanir sem væri hægt að dreifa með þessum hætti en þar á móti kemur spurning um kostnaðinn. Við þær kringumstæður sem við búum við í okkar þjóðfélagi hlýtur kostnaðurinn að skipta mjög miklu máli.
    Ég tel að þessi tillaga sé mjög góð viðbót við störf nefndarinnar. Ég vona að allshn. afgreiði þetta mál fljótt og vel og taki undir að hér séu sett raunhæf markmið sem er auðvitað tilgangurinn. Það er hægt að ,,fílósófera`` mikið um flutning ríkisstofnana og hvað sé æskilegt í þeim efnum en aðalmálið er að menn séu raunsæir og að fram komi tillögur sem eru raunsæjar og framkvæmanlegar.