Flutningur ríkisstofnana

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 14:53:31 (5011)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil benda hv. 16. þm. Reykv. á að það er yfirlýst stefna þeirrar ríkisstjórnar sem hann styður á Alþingi að flytja ríkisstofnanir út á land. Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar. Hún hefur skipað nefnd til að vinna að tillögum um þau mál.
    Það var margt rétt í því sem hann sagði hér. Þetta eru mjög stórar spurningar um hagkvæmni og um það hvað er raunsætt í þessum efnum. Ég get tekið undir það að auðvitað á að huga að þeim nýju stofnunum sem verið er að byggja upp. En það hefur komið fram mjög mikil tregða í því. Það hefur ekki einu sinni verið hugað að því að reisa þær einhvers staðar annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. Menn eru svo fastir í þeirri hugmynd að það sé hreinlega ekki hægt að stjórnsýslustofnanir eða stofnanir sem tilheyra því opinbera séu staðsettar einhvers staðar annars staðar en í Reykjavík. Ég nefni bara Fiskistofuna sem dæmi. Þegar verið var að huga að henni hér á síðasta ári hvers vegna í ósköpunum var ekki hægt að staðsetja hana annars staðar? Það má eflaust finna fleiri slík dæmi.
    Í þessu frv. er einungis um það að ræða að þingmenn setji sér markmið og vinni að þeim en auðvitað þannig að þau séu raunsæ. Það kemur ekki til greina og hlýtur öllum að vera ljóst að það verður ekki farið út í það að flytja ríkisstofnanir ef því fylgir verulegur kostnaður. Þá er það ekki hagkvæmt. En við erum að reyna að vinna að því að menn hugsi þessi mál út frá hagsmunum hinna ýmsu byggða. Að við styrkjum stöðu ákveðinna byggða og byggðakjarna en þó þannig að um raunsæjar hugmyndir sé að ræða sem ekki þýða aukinn kostnað og óhagræði fyrir ríki og landsmenn.