Flutningur ríkisstofnana

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 15:59:59 (5016)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er greinilega ljóst bæði af frammíköllum hv. þm. Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar og svari hans að þetta frv. er greinilega eitthvert áróðursfrv. af hans hálfu. Hótanir um að fara að endursegja norðan heiða það sem ég sagði hér um Háskólann á Akureyri og að eftir því yrði tekið o.s.frv., svo ég noti orðalag þingmannsins, er þá bara í þeim stíl. Ég er alveg tilbúinn að ræða það við þingmanninn og hvaða framsóknarmenn sem vilja hvort ekki hefði verið betra fyrir Akureyri að flytja Kennaraháskóla Íslands þangað 1975 en stofna eftir dúk og disk með miklum erfiðismunum háskóla á Akureyri. Ég er alveg tilbúinn að ræða það ef þingmaðurinn vill, hvort heldur á Akureyri eða hvar sem er, hvort hefði verið betri kostur tillaga mín um að flytja Kennaraháskólann árið 1974--1975 eða annað. Það alveg velkomið.
    Hins vegar þýðir ekkert fyrir þingmanninn að reyna að snúa sig út úr því með því að flytja einhverjar endurteknar ræður um að ég hafi ekki lesið frv. að ef tillagan um að sveitarfélögin taki alveg grunnskólann til sín, greiði launin og fái til þess tekjustofna er alveg ljóst að grunnskólinn reiknast ekki sem starfsemi ríkisstofnana. Það er alveg ljóst. Ég skil satt að segja ekki hvernig þingmaðurinn fær það út. Ef þetta 40% mark er hins vegar þannig að hægt sé að leika sér með það tölfræðilega fram og aftur get ég sagt þingmanninum að það skapar lítinn þrýsting á raunhæfar aðgerðir í þessum efnum.
    Það sem ég var að spyrja um er vilji framsóknarmanna og annarra þingmanna til að gera eitthvað raunhæft í þessum málum. Hann má kalla það árásir á Framsfl. ef hann vill. Staðreyndin er sú að Framsfl. hefur verið í ríkisstjórn frá 1971 og ég vil spyrja þingmanninn: Hvaða ríkisstofnun hafa ráðherrar Framsfl. flutt frá höfuðborgarsvæðinu út á land á þeim 20 árum?