Flutningur ríkisstofnana

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 16:52:13 (5022)

     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég á að túlka það þannig þegar hv. þm. segir að hann hafi ekki talað nema vinsamlega um málið, að hann sé að draga til baka þau ummæli sín að meginmarkmið þess væri algerlega óraunhæft eins og ég held að ég hafi orðrétt eftir hv. þm. hér úr ræðustól áðan, þessi 40% væru algerlega óraunhæft markmið.
    Hitt tek ég undir með honum að við eigum að reyna að ræða um þetta án þess að reyna að leggja á það þennan flokkspólitíska mælikvarða. Hv. þm. kaus að nefna eina sérstaka ríkisstjórn á þessu 20 ára tímabili. Því miður held ég að það hafi ekki meira gerst í þessum flutningsmálum á þeim tímum þegar Alþb. hefur verið í ríkisstjórn ef undan er skilið flutningur Skógræktarinnar til Austurlands sem er eitt lítið skref en mikilvægt og eins og ég rakti hér áðan var framkvæmt af Steingrími Sigfússyni, hv. þm., þá ráðherra þar sem hann var að framkvæma vilja Alþingis sem hafði samþykkt till. þess efnis flutta af Jóni Kristjánssyni, þingmanni Framsfl. á Austurlandi. Þannig að við þurfum öll sömul að taka okkur saman í andlitinu og taka á þessum málum á nýjan hátt.