Flutningur ríkisstofnana

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 16:53:47 (5023)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nú nokkuð erfitt að reyna að leggja því lið að þetta frv. fái umfjöllun hér

í þinginu ef hv. flm. bregst þannig við að við tveir sem höfum nú aðallega sýnt málinu áhuga og höfum haft nennu til þess að vera hér í þinginu í dag og ræða þetta mál, fáum bara snuprur frá þingmanninum fyrir það að leyfa okkur að hafa einhverjar skoðanir á málinu. Ég hélt satt að segja að þingmaðurinn mundi frekar fagna því að það eru þó til tveir þingmenn hér, ég og hv. þm. Árni Mathiesen, sem höfum (Forseti hringir.) --- hvers vegna er hæstv. forseti að slá í bjölluna? ( Forseti: Tími hv. þm. er búinn.) Nei, það er rangt hjá hæstv. forseta vegna þess að forseti endurstillti ekki tímamörkin þegar ég hóf mál mitt. ( Forseti: Það gerði forseti raunar.) Þá ætlaði hann mér held ég 20 sekúndur vegna þess að það var það sem eftir var, sú tala sem var hér í stólnum þegar ég byrjaði þannig að ég held að þetta hljóti að vera mistök hjá hæstv. forseta. ( Forseti: Þá skal forseti veita hv. þm. eina mínútu í viðbót.) Enda er ég nú að ljúka máli mínu. Það skiptir nú ekki miklu máli.
    En ég vil hins vegar láta það koma alveg skýrt fram að ég er sammála meginefni frv. Ég hélt að meginefni frv. væri að reyna að stuðla að flutningi ríkisstofnana. Ég hef ekki talið að þessi 40% ákvæði í 2. gr. væru meginefni frv. Það væri hins vegar aðferð sem væri verið að reyna að setja í frv. til að knýja á um að eitthvað mundi gerast. Ég hef haft mínar efasemdir um þá aðferð. Það er ósköp eðlilegt að það sé ágreiningur um það. Meginefni frv. um flutning ríkisstofnana er hins vegar á þann veg að ég hef verið og verð stuðningsmaður þess.