Húsaleigulög

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 10:55:13 (5028)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni um nauðsyn þess að koma á húsaleigubótum sem á döfinni hefur verið lengi, bæði af hálfu þessarar ríkisstjórnar og hinnar fyrri. Flest löndin í kringum okkur aðstoða leigjendur meira en gerist hér á landi og aðstoð í formi húsaleigubóta hefur tíðkast lengi á Norðurlöndum. Ég hef lagt mikla áherslu á að komið verði á aðstoð til að draga úr húsnæðiskostnaði leigjenda og hef lagt áherslu á að það verði gert í formi húsaleigubóta. Ég tel ekki búandi við það öllu lengur að fólk sem getur ekki komið sér upp þaki yfir höfuðið og þarf að vera á leigumarkaðinum og er kannski með lágar tekjur, 50--70 þús. kr. mánaðartekjur en þarf að greiða kannski helminginn eða 3 / 4 af því í leigugreiðslur fái ekki aðstoð frá hinu opinbera.
    Nýlega skilaði nefnd til mín tillögum í formi skýrslu undir heitinu ,,Almennar húsaleigubætur á vegum sveitarfélaga``. Tillögur þessar voru unnar af nefnd með aðild ASÍ, BSRB, Kennarasambands Íslands, félmrn., fjmrn., Sambands ísl. sveitarfélaga og Húsnæðisstofnunar. Þar koma fram almennar tillögur nefndarinnar. Ég hef í framhaldi af niðurstöðu hennar skipað þriggja manna nefnd til þess að útfæra frekari tillögur til að draga úr húsnæðiskostnaði leigjenda með aðild félmrn., fjmrn. og Sambands ísl. sveitarfélaga. En tillögur nefndarinnar lúta sérstaklega að því að framkvæmdin verði á vegum sveitarfélaga en ekki eins og áður var í tíð fyrri ríkisstjórnar en þá voru uppi tillögur um að húsaleigubætur yrðu greiddar í gegnum tekjuskattskerfið með hliðstæðum hætti og vaxtabætur. Ég vænti þess að ekki dragist um of að nefnd þessi skili til mín niðurstöðum og útfærslu á tillögum til þess að draga úr húsnæðiskostnaði leigjenda.