Húsaleigulög

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 11:23:09 (5035)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ítrekað er því haldið fram af hálfu þingmanna Alþb. við umræðuna að búið sé að leggja til hliðar húsaleigubætur og húsaleigubætur séu úti af borðinu. Þetta er rangt og enn eina ferðina skal ég segja það. ASÍ og BSRB hafa lagt mikla áherslu á húsaleigubætur, ekki síst BSRB. Þeir skrifa undir og þessa skýrslu án nokkurs fyrirvara. Þýðir það að búið sé að leggja til hliðar húsaleigubætur? Svarið er auðvitað nei.
    Hv. síðasti ræðumaður eyddi nokkrum orðum um það að ég væri búin að eyðileggja húsnæðiskerfið þau fimm ár sem ég hef setið sem ráðherra. Því vísa ég auðvitað á bug. Því til sönnunar vil ég rifja upp að í tíð minni sem félmrh. hafa verið reistar 3.300 félagslegar íbúðir af 8.000 sem til eru á landinu öllu frá upphafi 1929. Er það ekki að byggja upp félagslega aðstoð og byggja upp húsnæðiskerfi sem þjónar jafnt láglaunafólki og þeim sem geta komið sér þaki yfir höfuðið?
    Í tíð minni sem félmrh. hefur verið komið á húsbréfakerfi þar sem fólk þarf ekki að standa í biðröðum eftir lánum en getur fengið lán þegar það óskar eftir að koma sér upp húsnæði. Lánshlutfallið er 65% af verði íbúðar en ég vil rifja upp fyrir hv. þm. Svavari Gestssyni að þegar hann var félmrh. þá man ég ekki betur heldur en lánshlutfallið hafi verið um 15% sem fólk fékk í gegnum húsnæðiskerfið en ekki 65% eins og það er í dag. Á þeim tíma var því gert að fá stóran hluta af lánum sem það þurfti á að halda gegnum bankakerfið á dýrum vöxtum. Ég er alveg sannfærð um það að ef fólk metur stöðuna eins og það var þegar hv. þm. var félmrh. og stöðuna eins og hún er núna á húsnæðismarkaðinum að það mundi ekki vilja skipta og taka upp kerfið eins og það var þegar hv. síðasti ræðumaður var félmrh.