Húsaleigulög

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 11:28:09 (5038)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðeins ein sagnfræðileg athugasemd, misgengishópurinn varð auðvitað til fyrst og fremst vorið 1983 þegar ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstlf. bannaði vísitölu á laun, en verðbætur á lánum, skuldum, fengu að spinnast upp úr öllu valdi. Þá varð misgengishópurinn til. Eins og menn muna urðu átökin á vegum þessa hóps og skipulagið á vegum hans fyrst og fremst á árunum 1984 og 1985. Auðvitað var það fyrst og fremst vegna þess að menn gripu til þess, mér liggur við að segja siðlausa athæfis, að banna vísitölu á laun en leyfa vísitölu á lán á sama tíma, að þessi misgengishópur varð til.
    Hæstv. forseti. Mér þykir það merkilegt að það hefur komið fram hjá hæstv. félmrh. að þær hugmyndir sem uppi eru um húsaleigubætur eru upp á u.þ.b. 300 millj. kr. Ég hlýt að fara fram á það og endurtek ósk mína um það að upplýsingar um skýrsluna komi núna fram þannig að við getum metið það hvernig gert er ráð fyrir því að þessar 300 millj. komi við sögu. Ef gert er ráð fyrir því að sveitarfélögin greiði þetta og t.d. að þetta komi að einhverju leyti í staðinn fyrir þær húsaleigubætur sem sveitarfélögin eru hvort eð er að greiða. ( Félmrh.: Þetta er viðbót.) Ef þetta er viðbót þá bendi ég á að Reykjavíkurborg ein er að greiða upphæð sem svarar til a.m.k. þriðjungs af þessari tölu. Hún ein. Það er því augljóst að hér er um að ræða tiltölulega mjög lága tölu. Loks bendi ég, hæstv. félmrh., á að ríkisstjórn hennar lagði til fyrir örfáum vikum að afnema eða lækka vaxtabætur mjög verulega, um 10% ef ég man rétt. Af hverju var það? Það var vegna þess að ríkissjóður sjálfur er að kikna undan því að borga vaxtabætur af húsbréfunum sem hæstv. félmrh. var að mikla sig af hér áðan.