Innflutningur á gröfupramma

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 11:30:51 (5039)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Verktakafyrirtækið Sveinbjörn Runólfsson sf. fór þess á leit við samgrn. með bréfi 7. júlí sl. að fá leyfi til þess að flytja inn gröfupramma sem það hugðist nota við holræsaútlagnir fyrir Reykjavíkurborg. Skv. 21. gr. laga nr. 51/1987 er óheimilt að flytja inn skip eldri en 12 ára en pramminn var þá rúmlega tvítugur. Áður hafði fyrirtækið leigt sams konar pramma frá Danmörku og greitt fyrir hann 30 þús. kr. á dag í leigu.
    Ráðuneytið leitaði umsagnar Siglingamálastofnunar um prammann. 22. júlí 1992 birti stofnunin umsögn sína og segir þar m.a.: ,,Siglingamálastofnun getur fyrir sitt leyti fallist á innflutning prammans, þó með því skilyrði að heimild til undanþágu frá lögum fáist til innflutnings þar sem pramminn er meira en 12 ára gamall og að íslensk lög og reglur séu uppfyllt að öðru leyti.``
    Hinn 10. ágúst sl. heimilaði ráðuneytið Sveinbirni Runólfssyni sf. innflutning umrædds pramma og var heimildin veitt með fyrirvara um samþykki Alþingis. Umræddur prammi er að dómi Siglingamálastofnunar í lagi. Hann er notaður einvörðungu við verklegar framkvæmdir við landsteina og ber uppi vinnuvélar. Verð prammans var um 3,7 millj. kr. og miðað við leigugjald þess pramma sem fyrirtækið hafði á leigu áður er ljóst að hagkvæmara er að eiga fleytu af þessu tagi og ætti hagræðing af því tagi að geta stuðlað að aukinni hagkvæmni við framkvæmdir í fjöruborðinu eins og holræsalagnir. Með þessu frv. er leitað eftir samþykki Alþingis fyrir þessum kaupum.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til samgn. og vænti þess að hún geti afgreitt málið fljótt.