Dýrasjúkdómar

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 11:42:01 (5043)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil láta það koma fram við umræðuna að ég held að þetta frv. sé að ýmsu leyti til bóta. Það kemur í stað gamalla lagabálka sem sumir eru orðnir úreltir. a.m.k. í einstökum atriðum. Ég legg hins vegar áherslu á að þessi lagabreyting má ekki verða til þess að við slökum á um sjúkdómavarnir. Það er stóraukin hætta á því að sjúkdómar berist til landsins með auknum innflutningi búvara, m.a. sem afleiðing af samningum um EES og GATT og fyrirsjáanlega verður um aukinn innflutning á búvörum að ræða í framtíðinni. Þar að auki erum við í verulegri hættu vegna innflutnings sem nú þegar á sér stað, bæði löglega og ólöglega. Ég hef ekki haft tækifæri til þess að bera nákvæmlega saman ákvæði þessa frv. við þau lög sem verið er að nema úr gildi en treysti því að nefndin komi til með að gera það nákvæmlega. Þetta má ekki, eins og ég sagði, verða til þess að slakað verði á að nokkru leyti.
    Ég er með litla spurningu til ráðherra varðandi orðalag 10. gr. Þar segir að óheimilt sé að flytja til landsins eftirtaldar vörutegundir: ,,Hey, málm, alidýraáburð, gróðurmold og rotmassa blandað alidýraáburði, hráar og lítt saltaðar sláturafurðir, . . .  `` Nú vissi ég að bannað er að flytja inn hráar sláturafurðir en ég vissi ekki að heimilt væri að flytja inn hráar sláturafurðir ef þær væru mikið saltaðar. Ég vildi gjarnan að fyrir lægi betri skilgreining á þessu. Ég hef ekki rekist á hana í skýringum.
    Síðan er örstutt athugasemd af persónulegum toga varðandi orðaskýringar. Einhvern veginn er það svo að ég kann ákaflega illa við að telja eldisfiska með búfé. Ég held að það sé ekki í samræmi við máltilfinningu okkar landbrh. Ég á reyndar einnig erfitt með að hugsa mér loðdýr undir heitinu búfé. Kann þó að vera að það sé nærtækara. Ég á mjög erfitt með að kalla eldisfiska búfé.