Dýrasjúkdómar

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 11:51:14 (5046)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Þó ég gerði athugasemdir við að eldisfiskar væru kallaðir búfé má ekki skilja mál mitt svo að ég vilji undanskilja þá sjúkdómavörnum. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að staðið sé rétt og skynsamlega að sjúkdómavörnum. Ég ber mikið traust til hv. 3. þm. Reykn., Árna M. Mathiesen, í því efni að standa vörð um heilbrigði eldisfiska. Það var ekki mín meining að draga neitt þar úr eða undanskilja. Ég gerði einungis athugasemd við þessa málnotkun.
    Ég held að sjúkdómavarnir séu ákaflega mikilvægar. Íslendingar hafa hvað eftir annað orðið mjög hart úti vegna búfjársjúkdóma svo það hefur legið við landauðn. Ég minni á fjárkláða. Ég minni á mæðiveiki. Það vill svo til að ég man eftir niðurskurði sauðfjár á Norðurlandi vestra. Ég var þá barn og þá var algjör niðurskurður á sauðfé á stórum svæðum. Þetta hafði í för með sér feiknalega mikla efnahagsörðugleika. Mér er það í minni að fyrsta haustið eftir fjárskipti voru einungis lögð inn 2.600 lömb í sláturhúsið á Blönduósi. Þetta er landbúnaðarhérað sem síðar framleiddi til slátrunar um 70.000 dilka. Það var svipaður fjöldi fólks sem hafði framfæri sitt af sauðfjárrækt og þó reyndar nokkru fleiri en núna. Af þessu geta menn því séð að þar hefur verið þröngt í búi og lítið innlegg frá einstökum bændum þegar heildartalan var ekki nema 2.600 dilkar.
    Ég held að við eigum að vanda okkur. Ég er mjög fýsandi þess að menn slaki ekki um of á kröfunum um sjúkdómavarnir hvorki á því sem ég kalla búfé eða eldisfiskum.