Dýrasjúkdómar

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 11:56:23 (5048)


     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir frv. til laga um breytingar á lögum um sjúkdómavarnir búfjár. Vissulega er eðlilegt að breytingar séu gerðar á slíkum lögum þegar aðstæður breytast. Eitt atriði í því sambandi eru þau þáttaskil að nú vonast menn til að búið sé að ná tökum á ýmsum búfjársjúkdómum sem hafa orðið íslenskum bændum þungir í skauti. Þar má nefna síðast riðuna sem menn vænta að ekki þurfi að grípa til umfangsmikilla aðgerða til að berjast á móti heldur verði það bundið við einstaka býli.
    Ég vil þá nefna eitt í sambandi við það. Hér er gert ráð fyrir breytingu á sauðfjársjúkdómanefnd. Hún var mikilvægur liður til að tengja fulltrúa frá landbúnaðinum betur við þær aðgerðir sem þarna þurfti að ráðast í. Það er mikilvægt að áfram verði haft sem nánast samband við bændastéttina við framkvæmd þessara laga.

    Hitt atriðið sem ég vildi minnast og taka undir það sem hér hefur komið fram er að leggja áherslu á að ekki verði slakað á sjúkdómavörnum í sambandi við innflutning. Þar fengum við nýlega dæmi um sjúkdóm sem barst hingað til lands en virðist nú hafa tekist að koma í veg fyrir að yrði að mikilli farsótt. En það minnir á að hættan er alltaf fyrir hendi. En sérstaklega finnst mér nauðsynlegt að standa vel á verði í sambandi við alþjóðasamninga og að gefnu tilefni vegna yfirlýsingar hæstv. utanrrh. um að nota eigi þá samninga til að brjóta niður múra um landbúnaðinn undirstrika að því verði ekki beitt þannig að það brjóti niður múra varna gegn sjúkdómum. Ég skal ekki í umræðu um þetta mál víkja að annarri hlið þeirrar hótunar en vissulega væri alvarlegt ef það yrði að einhverju leyti á kostnað varna gegn búfjársjúkdómum.