Búnaðarfræðsla

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 12:31:47 (5061)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Varðandi það frv. sem hér er til umræðu þá er þetta stefna ríkisstjórnarinnar í hnotskurn að gera efnaminna fólki erfitt að afla sér menntunar. En það er dálítið merkilegt að heyra að það sé nauðsynlegt að leggja skólagjöld á bændaskólana og garðyrkjuskólann á sama tíma sem ríkisstjórnin er að tala um að efla verkmenntun í landinu. Það er verið að mismuna fólki þarna stórlega eftir efnahag og þeir sem hafa erfiðan efnahag fara þá ekki lengur í þessa verkmenntaskóla.
    Og í sambandi við seinni hluta frv. --- eins og fram hefur komið hér, þá ættu þetta auðvitað að vera tvö frumvörp, ekki eitt vegna þess að hér er um tvö óskyld efni að ræða, þarna er líka verið að tala

um RALA og þjónustugjöld á búvélar sem fluttar eru inn --- þá finnst mér þetta líka vera í hnotskurn það sem ríkisstjórnin er að gera í sambandi við atvinnulífið almennt. Það er alls staðar verið að leggja nýjar álögur á atvinnulífið og þarna er verið að leggja nýjar álögur á landbúnaðarvélar.
    Í þriðja lagi finnst mér að það væri kannski ráð að ríkisstjórnin færi að skoða það að auka rannsóknir á innfluttum matvælum meira en orðið er og það mundi kannski örva íslenskan landbúnað ef ríkisstjórnin tæki sig nú til og skoðaði betur það sem við erum að flytja hér inn, t.d. ýmiss konar garðyrkjuvörur. Ég er alveg viss um að ef rannsóknir t.d. á tómötum, gúrkum o.s.frv. sem verið er að flytja inn í dag væru auknar, þá yrði innflutningur bannaður. Ég er alveg viss um að það eru ýmis aukefni í þessum vörum sem eru skaðleg. Ég held að hæstv. landbrh. ætti að auka rannsóknir á innfluttum matvælum meira en gert hefur verið hingað til og einbeita sér að því og hætta að letja atvinnulífið með auknum sköttum.