Búnaðarfræðsla

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 12:34:15 (5062)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. hlýtur að hafa mistalað sig þegar hann sagði að allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar miðuðu að því að íþyngja atvinnulífinu. Hv. þm. er kunnugt um að þetta er ekki rétt. Skýrasta dæmið um það er að aðstöðugjaldið var fellt niður og má hafa um það fleiri orð.
    Ég veit ekki hvort hv. þm. ætlaðist til þess að orð hans skildust svo að það hefði fram að þessu verið séð fyrir þörfum þeirra skóla, landbúnaðarskólanna og annarra þeirra skóla þar sem verkmenntun hefur verið kennd. Það er síður en svo. Það hefur auðvitað skort mikið á að það hafi tekist. Við höfum ekki getað sinnt verkmenntun í landinu eins og við höfum kosið og auðvitað er þetta frv. liður í því að reyna að koma betur til móts við nemendur heldur en ella yrði hægt.
    Í öðru lagi liggur það ljóst fyrir að ríkissjóður er ekki einhver óþrjótandi lind sem menn geta endalaust sökkt sinni ausu í. Við tókum ekki við góðu búi að því leyti og auðvitað ber stjórn ríkisfjármála nú keim af því við hvaða búi var tekið. Innbyggður fjárlagahalli var gífurlegur. Menntamálin voru komin í ógöngur. Það er laukrétt hjá hv. þm. að fram að þessu hefur ekki verið nægilega gaumur gefinn að því hvaða eftirlit sé hægt að hafa með innfluttum matvælum, en ég hef verið að reyna að gera ráðstafanir til þess að þar megi herða eftirlit, m.a með sérstöku gjaldi sem þeir skulu greiða sem innflutninginn annast og er ætlast til þess að því tvígjaldi sé haldið sérstaklega til haga.