Búnaðarfræðsla

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 12:37:45 (5064)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hélt að öllum þingmönnum væri það vel kunnugt að mikið skortir á það að okkar gjaldeyrisöflun sé í því horfi sem hún þyrfti að vera. Á sl. árum hefur mikið vantað á það að við höfum gert okkar sem skyldi í sambandi við gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar sem kemur okkur nú í koll. Og það er auðvitað líka rétt sem hv. þm. á að vera kunnugt af því að hann talaði sérstaklega um sjávarútveginn, þá hefur það fyrst og fremst verið vegna mikillar arðsemi sjávarútvegsins sem hér hefur verið unnt að halda uppi þeim lífskjörum sem við höfum búið við á undanförnum árum.
    Nú bregður hins vegar þannig við að þorskstofninn hefur brugðist og auðvitað hlýtur það einhvers staðar að koma við. Það þýðir ekki að koma hingað einhvern tíma upp í ræðustólinn og tala eins og það skipti engu máli hvort við getum veitt þorsk í sama mæli og áður og reyna að gera því skóna að það sé einhver sérstakur vilji ríkisstjórnarinnar að draga úr tekjum þjóðarbúsins í heild sinni þegar það eru náttúrulegar orsakir sem eru höfuðorsakavaldurinn. Auðvitað má velta því fyrir sér hvort rétt hafi verið staðið að því hvernig við nýttum þorskstofninn á liðnum árum og spyrja að því í hvaða höndum sjávarútvegurinn hefur verið og hvað það er sem raunverulega veldur því að ekki skuli hafa verið lögð meiri áhersla á það t.d. að kanna lífríki sjávarins á liðnum árum og áratugum, ég veit ekki hvort ég á að segja frá 1971, allan þann tíma sem Framsfl. hefur verið við völd hér. Við tökum við þessu búi. Við verðum að standa frammi fyrir því að þorskstofninn hefur hrunið og við höfum ekki haldbærar skýringar á því af hvaða sökum það hefur verið.
    Hitt er líka auðvitað laukrétt að með því að við lögðum aðstöðugjaldið niður þá höfum við styrkt innlenda matvælaframleiðslu á kostnað erlendrar vegna þess að aðstöðugjaldið bitnaði miklu þyngra á innlendu matvælaframleiðslunni en innfluttu vörunni sem er auðvitað augljósast ef við tökum Hagkaup sem dæmi sem ekki þurfti að greiða aðstöðugjaldið nema einu sinni og berum það hins vegar saman við innlenda verksmiðjuframleiðslu.