Skálholtsskóli

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 13:16:10 (5074)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegur forseti. Ég kvaddi mér aðallega hljóðs vegna þess að hv. 14. þm. Reykv. nefndi að allmargir aðilar koma við sögu í Skálholti og á síðasta kjörtímabili þá gerði ég satt að segja nokkuð margar tilraunir til að reyna að stuðla að því að menn tækju á skipulagsmálum Skálholtsstaðar í heild. Ég ræddi þá sem menntmrh. við þáv. biskup Íslands og þáv. kirkjumrh. og óskaði eftir að þessi ráðuneyti, en undir forustu kirkjunnar, beittu sér fyrir því að fram færi heildarstefnumótun fyrir þróun Skálholtsstaðar, m.a. uppbyggingu svæðisins, hvaða hús eiga að vera hvar og í þágu hvaða starfsemi. Satt best að segja þá fannst mér viðbrögð kirkjunnar furðulega sljó í þessu máli. Ég hef grun um að einhver undarleg innri valdabarátta hafi verið innan kirkjunnar, sem ég nenni ekki að tala um úr þessum virðulega stól, sem réði því að kirkjan náði ekki vopnum sínum í málinu og fékkst þess vegna ekki til þess að taka á móti þeim áhuga sem birtist í stjórnkerfinu að öðru leyti með eðlilegum hætti. Þetta ítreka ég, virðulegi forseti, og segi jafnframt við hæstv. kirkjumrh. að fyrir mitt leyti að skora ég á hann að beita sér fyrir því að samstarf verði á milli allra aðila, ráðuneytanna og kirkjunnar um þetta mál og um framtíðarskipulag Skálholtsstaðar. Ég tel mjög mikilvægt að ekki aðeins kirkjan komi þar við sögu heldur líka mennta- og menningarmálaráðuneytið, ekki aðeins vegna skólans, heldur líka vegna þeirrar menningarstarfsemi sem hv. 14. þm. Reykv. gat um áðan og ber auðvitað að taka undir þakkir hennar, ekki síst til Helgu Ingólfsdóttur, í því sambandi.
    En fleira steðjar að Skálholtsstað en sá vandi að menn geti ekki komið sér saman um hvernig á að raða í hús á því svæði. Fyrir skömmu munu hafa birst hjá sýslumanni Árnesinga fulltrúar fjmrn. og óskað eftir því að eign ríkisins og fjmrn. á Skálholtsstað yrði þinglýst. Í nýlegri eignaskrá íslenska ríkisins, sem var birt á sl. ári, er Skálholt orðið undir fjmrn. Það hygg ég að hinum fornu biskupum, sem að vísu lögðu á tíund af þeim stað fyrstir manna í landinu, hefðu þótt mikil forsögn ef þeir sem eiga að annast fjármál ríkisins ættu að yfirtaka þann andlega höfuðstað þessa lands. Sumir segja Suðurlands, ég segi stundum þessa lands. Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. kirkjumrh.: Hver á Skálholt? Ég er þeirrar skoðunar að fjmrh. hafi ekkert með Skálholt að gera og það beri að halda höndum hans frá Skálholti. Auðvitað á kirkjan að fara með Skálholt og kirkjumrh. að svo miklu leyti sem það mál heyrir undir ríkisstjórnina á hverjum tíma.
    Varðandi það frv. sem hér liggur fyrir þá náttúrlega væri hægt að stytta það mjög mikið vegna þess að það segir ekkert annað í þessu frv. en að það eigi að leggja Skálholtsskóla niður eins og hann hefur verið. Það eru til lög um Skálholtsskóla sem heyra undir menntmrn. Menntmrn. hefur haft með skólann að gera frá því að lögin voru sett í upphafi en í lögunum segir að kirkjuráð geti tekið ákvörðun um þá starfsemi sem þarna fer fram, hvernig henni er hagað og hvort hún fer yfirleitt fram. Þess vegna gæti yfirstjórn kirkjunnar ákveðið á grundvelli gildandi laga að mínu mati, að haga starfseminni eins og gert er ráð fyrir í frv. Ekki þarf frv. til þess. Það eina sem þarf frv. til í þessu efni er að það standi í því að ríkið eigi að leggja til samkvæmt samningi á ári hverju tiltekna fjármuni. Það eina sem er mikilvægt í þessu frv. þegar upp er staðið, virðulegi forseti, er ekki frv. sjálft heldur fylgiskjalið þar sem gert er ráð fyrir því að ríkið leggi Skálholti til --- ég held 4 millj. kr. á ári um nokkurra ára skeið.
    Það hefði líka verið hægt að koma þessu fskj. við á grundvelli gildandi laga, það þarf engar lagabreytingar til þess. En ef menn vilja endilega hafa þetta svona, úr því það er samkomulag við kirkjuna um að hafa þetta svona þá ætla ég ekki að fara fyrir mitt leyti, að svo miklu leyti sem ég kem nálægt þessu máli, að skipta mér af því.
    Þetta mál var ítarlega rætt í samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar, bæði á þessu ári og í fyrra.

Í frv., eins og það var lagt fyrir nefndina í fyrra, var það miklu ítarlegra. Þar var kveðið á um einstök atriði í skipan skólans, mér liggur við að segja hvað ætti að læra og hvaða deildir ættu að vera og þar fram eftir götunum. Ég var andvígur því. Ég taldi að ef það ætti að flytja frv. á annað borð þá ættu þetta að vera rammalög og ef kirkjan ætlaði að ráða þessu á annað borð þá ætti hún að ráða því öllu. Mér sýnist að það sé niðurstaðan þannig að svarið við þeim spurningum sem fram komu hjá hv. 2. þm. Suðurl. hljóti að vera það að það sé bara kirkjuráð, það sé biskup, sem hafi þarna hið æðsta vald undir yfirstjórn kirkjumrh.
    Mér er sagt að nokkrar deilur hafi orðið um það í þinginu í gær til hvaða nefndar mál færi. Ég ætla ekki að taka þær deilur upp en aðeins að benda á að það er mikið álitamál hvort þetta frv. á að fara til allshn. Samkvæmt hefðum á Alþingi hefði menntmrh. átt að flytja þetta frv. og það hefði svo átt að fara til menntmn. og síðan er það allsherjarnefndarmál. Þannig hefur venjan verið þegar mál hafa verið flutt á milli ráðuneyta. Það er verið að flytja mál á milli ráðuneyta með þessu frv. Það er verið að taka það frá mennmrn. og flytja það yfir til kirkjumrn. Ég hefði því talið eðlilegast að menntmn. hefði fengið þetta mál til meðferðar en með hliðsjón af aðdraganda málsins og því að það hefur verið fjallað um það í þessari samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar þá ætla ég ekki að gera neinar athugasemdir við það út af fyrir sig. Aðalerindi mitt er sem sagt að óska eftir því að hæstv. kirkjumrh. svari tveimur spurningum. Í fyrsta lagi: Hver á Skálholt? Og í öðru lagi: Er hann tilbúinn til að beita sér fyrir því að teknar verði ákvarðanir um það hvernig hagað verður samstarfi varðandi framtíðarnotkun Skálholtsstaðar, samstarfi allra þeirra sem þar eiga hlut að máli?