Skálholtsskóli

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 13:23:31 (5075)

     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið hjá ráðherra byggir frv. þetta á frv. um Skálholtsskóla sem samið var af nefnd um málefni Skálholtsstaðar og flutt var á vorþingi á sl. ári. Frv. hefur verið einfaldað eins og fram kemur í athugasemdunum og er nú í formi ramma um starfsemina. Talsverðar umræður urðu í nefndinni um formið á frv. á sínum tíma og hversu nákvæmt það ætti að vera. Niðurstaða nefndarinnar varð þá sú að það skyldi verða samþykkt eins og það var flutt á sl. ári. En eftir umfjöllun á kirkjuþingi í október sl. var það ljóst að almennur áhugi og vilji var fyrir því að einfalda frv. í formi rammafrumvarps.
    Nefndin hefur ekki gert athugasemdir við þá breytingu enda telur hún að sá samningur sem fylgir frv. feli í sér frekari útfærslu sem er í samræmi við grundvallarhugmyndir nefndarinnar um starfsemi skólans og eðli umfangs skólans.
    Ég vil einnig geta þess að nefndin mun á næstunni skila endanlegri skýrslu um málefni Skálholtsskóla og Skálholtsstaðar alls þar sem m.a. kemur fram hlutur bókasafns og hugmyndir um framtíð þess, hugmyndir um framtíð skólans að sjálfsögðu, um nýtingu landsins og um aðra þætti en þá sem falla beint undir kirkjuna. Þessi skýrsla mun væntanlega sjá dagsins ljós nú á næstu vikum.
    Ég er ekki í nokkrum vafa um að kirkjunni mun takast að skapa góðan grundvöll fyrir starfsemi Skálholtsskóla og ekki síst miðað við þann áhuga sem ég hef orðið vör við innan kirkjunnar og meðal annarra áhugamanna um málefni kirkjunnar og Skálholtsstaðar. Þess vegna vænti ég þess að það takist að skapa góðan grundvöll fyrir starfsemi skólans og sú breyting, sem nú verður á starfseminni, verði skólanum og kirkjunni heilladrjúg.