Skálholtsskóli

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 13:44:44 (5079)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Rétt er að taka það fram vegna ummæla hv. 9. þm. Reykv. að í framhaldi af niðurstöðu kirkjueignanefndar lýsti ég því yfir að það væri eðlilegt og rétt að umræða yrði hafin á milli ríkis og kirkju um það hvernig staðið yrði að framkvæmd á niðurstöðum þess álits. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu mína um málsmeðferð í því efni. Í framhaldi af því var komið á fót sjálfstæðum viðræðunefndum dóms- og kirkjumrn. annars vegar og kirkjunnar hins vegar til að fjalla um niðurstöður kirkjueignanefndarinnar og hvernig þeim yrði komið í framkvæmd og það starf er nú í fullum gangi. Öllum var ljóst, bæði ráðuneytismönnum og kirkjunnar mönnum, að það kynni að taka nokkurn tíma að komast að endanlegri niðurstöðu um hvernig að því verki yrði staðið en fundir þessara nefnda eru nú haldnir og með ákveðnum og öruggum hætti er unnið að framgangi þess máls.