Umferðarlög

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 14:10:41 (5083)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á umferðarlögum nr. 50/1987. Með frv. er lagt til að gerðar verði ýmsar breytingar á umferðarlögum í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af framkvæmd þeirra á undanförnum árum. Enn fremur felast í tillögunum nokkur atriði sem ekki er nú tekið á í lögum og önnur atriði eru endurskoðuð vegna nýrra aðstæðna.
    Gildandi umferðarlög frá 1987 tóku gildi 1. mars 1988, fólu í sér margvíslegar breytingar frá fyrri lögum um þessi efni. Mesta breytingin var í því fólgin að umferðarreglur voru samræmdar umferðarreglum erlendis og reglum alþjóðasamnings um umferð sem gerður var í Vínarborg 1968. Ísland hefur þó ekki enn gerst aðili að þeim samningi m.a. vegna annmarka sem felast í lögunum. Þegar frv. til umferðarlaganna var til lokameðferðar hér á Alþingi í marsmánuði 1987 var bætt við það ákvæði til bráðabirgða þess efnis að þau skyldi endurskoða fyrir árslok 1991. Þetta frv. er flutt til þess að fullnægja ákvæði þessu í lögunum. Því miður hefur það dregist úr hömlu að þeirri endurskoðun yrði lokið. En þær breytingar sem hér liggja fyrir eru grundvöllur þess starfs.
    Ég mun þá, frú forseti, gera nokkra grein fyrir helstu ákvæðum frv. en vísa að öðru leyti til hinna almennu og sérstöku athugasemda sem prentaðar eru með frv. Ég vík fyrst að atriðum sem beinlínis varða öryggi þeirra sem eru í umferðinni. Með 19. gr. frv. er lagt til að ákvæði um notkun hlífðarhjálms sem frá 1977 hafa gilt við akstur bifhjóla (þar með eru talin létt bifhjól) gildi einnig við akstur torfærutækja. Samkvæmt umferðarlögum teljast torfærutæki annars vegar létt ökutæki á beltum og hins vegar létt ökutæki á hjólum, einkum tví- og þríhjól sem aðallega eru ætluð til aksturs utan vega. Eru ökutæki þessi, sem flest eru hraðskreið, einkum notuð utan vega og þá við erfið skilyrði.
    Samkvæmt 71. gr. umferðarlaga er kveðið svo á að hver sá sem situr í sæti bifreiðar sem búið er öryggisbelti skuli nota það. Ákvæði þetta hefur gefið tilefni til álitaefna við túlkun. Er því með 18. gr. frv. lagt til að ákvæði þetta verði gert skýrara og að skyldan nái til hvers sem notar sæti sem búið er belti.
    Með 18. gr. frv. er einnig lagt til að tekið verði upp í umferðarlögin ákvæði um að ökumaður skuli sjá um að farþegi yngri en 15 ára noti viðeigandi öryggis- eða verndarbúnað, svo sem öryggisbelti, barnabílstól eða annan búnað ætlaðan börnum. Er þetta í samræmi við norrænar reglur hér að lútandi. Hins vegar eru ekki efni til að kveða á um ábyrgð ökumanna á því hvort farþegar almennt noti öryggisbelti.
    Með 32. gr. umferðarlaga var ákveðið að við akstur bifreiðar og bifhjóls skuli lögboðin ljós jafnan vera tendruð. Var hér um að ræða nýmæli. Reynsla af skyldunotkun ökuljósa allan sólarhringinn hefur verið góð og þykir rétt að leggja til með 6. gr. frv. að ákveðin verði skyldunotkun ljósa allan sólarhringinn á öllum vélknúnum ökutækjum.
    Með 10. gr. frv. er lagt til að ökuréttindaflokkar verði aðlagaðir alþjóðlegum reglum. Á það við um réttindaflokka er varða bifreiðar annars vegar og eftirvagna hins vegar. Þá er lagt til vegna fjölgunar aflmikilla bifhjóla og tíðni umferðarslysa þar sem bifhjól koma við sögu að heimild verði veitt til að taka upp sérstakan réttindaflokk til að mega stjórna bifhjólum sem eru með aflvél sem er meira en 125 rúmsentimetrar að slagrúmmáli.
    Samkvæmt 57. gr. umferðarlaganna má æfingaakstur á bifreið því aðeins fara fram að við hlið nemanda sitji löggiltur ökukennari og æfingaakstur á bifhjóli má aðeins fara fram undir leiðsögn og eftirliti löggilts ökukennara. Talið hefur verið að það sé að nokkru leyti reynsluleysi að kenna að ungir ökumenn lenda oftar í umferðaróhöppum en aðrir ökumenn. Ástæða þess sé í sjálfu sér ekki vanþekking á umferðarreglum eða léleg ökukennsla heldur fyrst og fremst of lítil reynsla í akstri. Er talið að bæta megi úr þessu með því að heimila nemanda að æfa sig í akstri með leiðbeinanda sem þegar hefur hlotið reynslu í akstri þannig ökutækis. Er slík heimild fyrir hendi í nokkrum löndum og er talin hafa skilað góðum árangri. Er þá oft um það að ræða að foreldri eða eldra systkini sé þannig leiðbeinandi. Með 11. gr. frv. er lagt til að dómsmrh. verði heimilað að setja reglur um slíkan æfingaakstur enda uppfylli leiðbeinandi tiltekin skilyrði. Í slíkum reglum mundi þá einnig verða kveðið frekar á um æfingaaksturinn, svo sem hvaða þjálfun nemandi skuli hafa hlotið, hvar og hvenær æfingaakstur megi fara fram o.s.frv. Æskilegt er að nemanda gefist rúmur tími til að stunda æfingaakstur áður en hann gengst undir ökupróf. Því er talið heppilegt að nemandi getið hafið ökunám fyrr en þremur mánuðum áður en hann öðlast aldur til að fá ökuskírteini svo sem nú er. Er því lagt til að þessi tími verði lengdur í sex mánuði.
    Með umferðarlögunum 1987 var sú breyting gerð að kveðið var á um sviptingu ökuréttinda en í eldri lögum var kveðið á um sviptingu ökuleyfis og réttar til að öðlast það. Breytingin var ekki skýrð í frv. þótt telja verði að ætlunin hafi verið að nota hugtakið þannig að það tæki til beggja tilvika. Hæstiréttur hefur túlkað þetta ákvæði umferðarlaganna þannig að ekki sé með dómi unnt að svipta mann rétti til að öðlast ökuskírteini. Þessi túlkun leiðir þó ekki til þess að sá sem ekki hefur ökuréttindi en hlýtur refsingu fyrir brot vegna háttsemi sem varðar sviptingu ökuréttinda eigi varinn rétt til þess að fá útgefin ökuréttindi. Lögreglustjóri getur þá synjað hlutaðeigandi um útgáfu ökuskírteinis á grundvelli 68. gr. a í almennum hegningarlögum.
    Með 22. og 23. gr. frv. er lagt til að á ný verði tekið í umferðarlögin ákvæði þess efnis að svipta megi mann rétti til að öðlast ökuskírteini. Er lagt til að orðið ökuréttur verði notað í þessu sambandi og að svipting ökuréttar feli þá í sér hvort heldur er sviptingu réttar samkvæmt ökuskírteini eða sviptingu réttar til að öðlast ökuskírteini.
    Með 22. gr. frv. er enn fremur lagt til að orðin ,,vegna öryggis umferðarinnar`` verði felld niður í 1. mgr. 101. gr. laganna. Segir þar nú að svipta skuli ökumann rétti er telja verður með hliðsjón af eðli brotsins eða annars framferðis hans sem ökumanns varhugavert vegna öryggis umferðarinnar eða hann hafi ökuréttindi. Með því að fella hin tilvitnuðu orð niður verður heimild til að svipta ökurétti rýmri og getur hún þá náð til fleiri tilvika, t.d. þess þegar ökumaður gerist oft sekur um akstur án þess að hafa öðlast ökuskírteini eða verið sviptur ökuréttindum.
    Þá vil ég vekja athygli á nýmæli sem felst í 3. gr. frv. og varðar akstur utan vega í þéttbýli. Er þar lagt til að ákveðið verði að akstur utan vega í þéttbýli skuli vera óheimill á svæði sem ekki er ætlað fyrir umferð vélknúinna ökutækja. Svæðin sem hér er um að ræða mundu m.a. vera opin svæði, tún, garðar og önnur viðlíka svæði í þéttbýli. Mundi akstur þar því aðeins vera heimill að landeigandi eða annar þar til bær umráðamaður leyfði.
    Af 43. gr. umferðarlaganna leiðir að akstur svonefndra torfærutækja í þéttbýli er ýmsum annmörkum háður. Lögregluyfirvöld hafa þó talið annmarka á að amast við akstri þessara ökutækja í byggð eða á opnum svæðum í bæjum en af akstri þessum stafar oft veruleg truflun og hætta svo sem á svæðum sem ætluð eru til útivistar, auk þeirrar truflunar sem verður af hávaða.
    Ákvæði 3. gr. frv. er eingöngu ætlað að taka til þéttbýlis. Það tekur því ekki til aksturs utan vega að öðru leyti.
    Þá vil ég nefna breytingar sem lagðar eru til með 14.--16. gr. frv.
    Eins og kunnugt er tók Bifreiðaskoðun Íslands hf. við verkefnum Bifreiðaeftirlits ríkisins að því er varðar skráningu ökutækja, skoðun þeirra og eftirlit. Á árinu 1988 var gerður sérstakur samningur um þetta milli dómsmrn. og fyrirtækisins þar sem félaginu var veittur einkaréttur til almennrar skoðunar til loka ársins 2000. Fyrirtækið sem að helmingi til er í eigu ríkissjóðs hefur staðið myndarlega að uppbyggingu skoðunarstöðva víðs vegar um landið. Nú eru hins vegar í undirbúningi breytingar á þessu fyrirkomulagi. Skömmu fyrir jól voru afgreidd héðan frá Alþingi ný lög um vog, mál og faggildingu. Hefur þannig verið sett almenn löggjöf um viðurkenningu, faggildingu, á aðilum sem taka að sér ýmiss konar viðurkenningu, vottun og prófun á efni, framleiðslu, mannvirkjum, búnaði, ferli, þjónustu og fleira, svo og hæfni og þekkingu þeirra er að því starfa. Undir þetta mun falla það hverjir megi annast skoðun ökutækja. Slíkar skoðunarstöðvar munu annast hvort heldur er almenna skoðun ökutækja eða einstaka þætti skoðunar, svo sem endurskoðun. Bifreiðaskoðun Íslands hf. hefur þegar fallist á að öðrum aðilum sem uppfylla almenn skilyrði verði heimilað að skoða ökutæki almennri skoðun þrátt fyrir ákvæði í samningi þess við ráðuneytið um einkarétt þess til almennrar skoðunar og á grundvelli gildandi lagaákvæðis hefur þegar verið sett reglugerð um starfshætti þeirra sem annast lögboðna skoðun ökutækja. Munu þær reglur taka gildi 1. jan. 1994.
    Ég hef hér gert grein fyrir nokkrum atriðum sem felast í frv. til breytinga á umferðarlögum sem hér liggur fyrir. Til enn frekari skýringar leyfi ég mér að vísa til athugasemda þeirra sem fylgja frv. Ég vil geta þess að dómsmrn. hefur komið á framfæri við hv. allshn. tillögu um breytingu á 22. gr. umferðarlaga sem varðar framúrakstur við gatnamót. Vegna túlkunar bifreiðatryggingafélaganna á þeirri grein sem reyndar hefur ekki verið staðfest af dómstólum, er lagt til að inn í greinina verði bætt ákvæði þannig að ljóst verði að því leyti sem framúrakstur við slíkar aðstæður er ekki bannaður, sé hann því aðeins heimill að skilyrði til þess séu að öðru leyti fyrir hendi. Með bréfi ráðuneytisins til allshn. vegna þessa fylgir greinargerð þar sem raktar eru forsendur fyrir því að með nýju umferðarlögunum var fallið frá fortakslausu banni við framúrakstri á eða við gatnamót og hann heimilaður við tilteknar aðstæður, með það í huga að tryggja greiða umferð án þess að stofna umferðaröryggi í hættu.
    Umferðarlög og reglur eru eigi ein sér fullnægjandi til þess að vel fari í umferðinni. Þar þurfa allir að leggja sitt af mörkum. Þar kemur til hegðan ökumanna og annarra vegfarenda, ábyrgð eigenda og notenda ökutækja og einnig ábyrgð þeirra sem leggja til vegina sem umferðin fer eftir, ríkis og sveitarfélaga. Allir þessir aðilar þurfa að leggjast á eitt. Það þarf að kynna þær reglur sem gilda og opna skilning allra á gildi þeirra og því að eftir þeim sé farið. Alþingi hefur komið á fót sérstakri stofnun, Umferðarráði, sem m.a. er ætlað að beita sér fyrir bættum umferðarháttum, beita sér fyrir og standa fyrir umferðarfræðslu og sameina sem flesta aðila til samstilltra og samræmdra átaka í umferðarslysavörnum og bættri umferðarmenningu. Starfsemi Umferðarráðs þarf að efla og styrkja. Í því skyni samþykkti Alþingi á síðasta vetri og að mínu frumkvæði breytingar á hlutverki Umferðarráðs þannig að því er nú falið að hafa með höndum umsjón með ökunámi, eftirliti með ökukennslu og annast ökupróf. Með því að samhæfa þessa þætti almennri starfsemi Umferðarráðs styrkir það stofnunina til frekari verkefna á sviði umferðarfræðslu til bættrar umferðarmenningar. Þessi breyting á hlutverki Umferðarráðs hefur komið til framkvæmda í áföngum. Almenn ökupróf fluttust til Umferðarráðs þegar í vor og ökuprófin og hin hefðbundna starfsemi ráðsins fluttist undir sama þak í nýju húsnæði um mitt sl. sumar. Í haust var gefin út námsskrá fyrir nám til aukinna ökuréttinda. Fer slíkt nám nú fram undir eftirliti Umferðarráðs á vegum þriggja ökuskóla sem til þess hafa fengið viðurkenningu stjórnar ráðsins. Þá er á vegum Umferðarráðs unnið að námsskrá vegna bifhjólanáms og fyrirhuguð er endurskoðun eldri námskrár vegna almennra ökuréttinda. Enn fremur er þess að geta að gert hefur verið samkomulag við Kennaraháskóla Íslands um að hann í samstarfi við Umferðarráð taki að sér að annast menntun ökukennara og er fyrirhugað að slíkt nám geti hafist á hausti komanda.
    Ég tel að starfsemi Umferðarráðs megi enn efla. Til þess hefur hins vegar m.a. skort fjárveitingar. Með samþykkt Alþingis nú fyrir áramótin á sérstöku umferðaröryggisgjaldi er renna á til Umferðarráðs vænkast hins vegar hagur þess og gefur því tækifæri til að takast á við þessi verkefni. Innan ráðsins hefur verið rætt um að gera sérstaka áætlun um aukið umferðaröryggi og átak til þess að koma í veg fyrir umferðarslys og er unnið að þeim málum á þeim vettvangi um þessar mundir.
    Frú forseti. Ég hef þá lokið við að gera í aðalatriðum grein fyrir efni þessa frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.