Umferðarlög

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 14:24:25 (5084)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér er um nokkuð stórt mál að ræða og ég vil vekja athygli á því að hv. allshn. fær til meðferðar frv. sem felur í sér leið til að ná verulega niður kostnaði í heilbrigðisþjónustu. En eins og oft hefur komið fram þá er það metið svo að kostnaður þjóðfélagsins við umferðarslys sé allt að 10 milljarðar kr.
    Það var eitt atriði í ræðu hæstv. dómsmrh. sem mig langaði til að gera athugasemd við eða vekja athygli á, en það voru þau ummæli hans að menn teldu að reynsluleysi ungra ökumanna væri einn meginvaldur umferðarslysa. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort menn mundu í dag setja svona flókin tæki, eins og bílar eru, öflug og flókin tæki, í hendurnar á 17 ára unglingum. Þegar þetta aldurstakmark var ákveðið á sínum tíma þá voru bílar ekki nærri því eins öflugir og þeir eru núna og það er auðvitað bara ekki reynsluleysi sem veldur því að ungir ökumenn eru valdir að flestum umferðarslysum og því miður skaða þeir sjálfan sig í mjög mörgum tilvikum, heldur er það spurningin hvort það er ekki einfaldlega um þroskaleysi að ræða. Hvort það er ekki verið að fela ungu fólki, eða setja því í hendur tæki sem það hefur hreinlega ekki þroska til að stýra. Mér finnst þetta vera mjög alvarleg spurning sem við stöndum frammi fyrir í þessu efni og ég vil beina því til hv. allshn. að hún hugleiði það hvort ekki verði að hækka bílprófsaldur, því það er alveg óskaplegt að horfa upp á öll þessi slys og þetta er auðvitað allt of dýrt fyrir það fólk sem í því lendir, og þá er ég að tala um í hamingju og lífsmöguleikum, og þetta er líka allt of dýrt fyrir samfélagið.
    Ég vil beina því til hæstv. dómsmrh. (Forseti hringir.) --- ég er alveg að ljúka máli mínu --- að það fari hreinlega fram rannsókn á þessu. Mér finnst menn ekki hafa tekið tillit til þeirra niðurstaðna sem komið hafa út í sálfræðilegum rannsóknum á ungu fólki og menn verði bara að taka tillit til þess að þetta er of lágur aldur.