Umferðarlög

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 14:27:11 (5085)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þetta frv. þó það sé eins og hann gat um, aðeins síðbúnara heldur en kveðið er á um í gildandi umferðarlögum frá 1987. Væntanlega sýnir sá dráttur að ekki hafi verið talin mjög aðkallandi þörf á breytingum á lögunum og þá að þær breytingar sem voru gerðar með þeim umferðarlögum hafi tekist vonum framar. Þær breytingar voru þá mjög miklar frá því sem áður hafði verið. Reyndar hafa síðar verið gerðar breytingar á umferðarlögum eins og hæstv. ráðherra gat um, en ég ætla ekki að fara að fjölyrða um þær eða einstök atriði þessa frv. nú, þar sem ég á sæti í allshn. og þar mun málið verða skoðað. Þessi mál eru mjög erfið og alltaf álitamál hvernig þeim á að haga með lagasetningu í einstökum atriðum en það mun nefndin að sjálfsögðu reyna að vega og meta eftir því sem kostur er. Nefndin hefur einnig fengið ábendingar og tillögur frá öðrum aðilum sem verða þá skoðaðar um leið. Ég vænti þess að það gefist tóm til að athuga þetta mál vel þó að ég vilji taka undir það með hæstv. ráðherra að æskilegt sé að það verði afgreitt núna á þessu þingi til þess að þær umbætur sem í því eru komi sem fyrst til framkvæmda.