Undirbúningur vegna hálfrar aldar afmælis lýðveldisins

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 14:46:51 (5090)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um undirbúning vegna hálfrar aldar afmælis lýðveldisins 1944. Þessi tillaga er stutt og er best að lesa hana ásamt athugasemd:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa 6 manna nefnd til að gera tillögur um hvernig fagna eigi hálfrar aldar afmæli hins íslenska lýðveldis árið 1994. Skal hver þingflokkur tilnefna einn fulltrúa til setu í nefndinni.
    Forsætisráðherra skipar formann nefndarinnar, án tilnefningar.

    Athugasemdir við þáltill. þessa:
    Sumarið 1994 verða liðin 50 ár frá stofnun íslenska lýðveldisins og er við hæfi að þessara merku tímamóta í sögu þjóðarinnar verði minnst með viðeigandi hætti. Nefndin skal gera tillögur um hvernig fagna eigi þessum tímamótum, auk þess að taka afstöðu til hvernig undirbúningi afmælisins skuli háttað.``
    Hér á dagskránni er önnur tillaga sem verður einnig fylgt úr hlaði við sama tækifæri sem er efnislega í sama anda. Eins og þessi tillaga sem ég kynnti ber með sér, þá er í henni gert ráð fyrir nefnd sem Alþingi mundi tilnefna í eða hver þingflokkur mundi tilnefna í auk þess sem forsrh. mundi skipa formann nefndarinnar, væri nefnd þar sem jafnræði væri milli stjórnar og stjórnarandstöðu um skipan í nefndinni. Mér finnst fara vel á því í sambandi við hátíðahald eða fagnað vegna hálfrar aldar afmælis hins íslenska lýðveldis, að í nefnd sem um það fjallar gæti ekki meirihlutaskipunar stjórnar eða stjórnarandstöðu á hverjum tíma. Það sé líklegra til þess að um mál megi fjalla í sátt að haga skipun nefndarinnar með þessum hætti.
    Við þekkjum mörg dæmi þess að tilefni af þessu tagi hafa verið notuð með myndarlegum hætti í okkar stuttu fullveldissögu og af þeim fagnaði hefur ekki aðeins verið stundargaman þó gott sé heldur hafa jafnframt verið lögð drög að farsælum ákvörðunum sem hafa gert þjóðinni gagn til lengri tíma. Jafnframt hafa slíkir atburðir verið til þess fallnir að þjappa þjóðinni saman. Við Íslendingar erum dálítið gefin fyrir deilur og karp sem út af fyrir sig þarf ekki sérstaklega að kvarta yfir því að það getur verið af hinu góða að takast á um efni, en það getur líka verið kostur fyrir þessa litlu þjóð að nota þessi hátíðlegu tilefni og mikilvægu til þess að leita samstöðu og sátta og finna þann samhug sem þessi þjóð þarf ríkulega á að halda. Ég tel ekki, þótt tímamótin séu merkileg að endilega sé nauðsynlegt að til þessara hátíðahalda eða tímamóta sé varið mjög miklum fjármunum. Ég tel að það sé hægt að gera góðan fögnuð án þess að stórkostlegum fjármunum sé til þess varið. Það sé ástæða til þess að stilla slíku í hóf á þeim tímum sem við nú lifum, en þó að slíkt sé gert þá tel ég að það sé hægt að standa að slíkum tímamótum og hátíðahöldum með myndarbrag. Þau séu til þess fallin að minna okkur á að okkar barátta, þessa fámenna lýðveldis, er eilífðarbarátta um fullveldi þess í margvíslegum skilningi. Við fáum mörg dæmi um það um þessar mundir í nágrenni okkar að sú barátta er ævarandi. Ég tel að hvert stórafmæli eigi m.a. að nota til þess að skerpa hugsun um þau efni.
    Jafnframt tel ég nauðsynlegt að slík tímamót yrðu notuð til þess að menn huguðu að landinu sjálfu og þeirri skuld sem við teljum okkur auðvitað með réttu eiga landinu að gjalda og þess vegna hljóti þættir eins og umhverfisþættir, landgræðsla, skógrækt og slíkir þættir að vera ofarlega í þeim hugmyndum sem ræddar yrðu í tengslum við afmælishaldið. Ég vona að um þessa tillögu og þá tillögu sem mælt verður fyrir hér á eftir geti orðið bærileg samstaða hér í þinginu. Það má finna að því að dregist hefur að þessi mál komi til umræðu og skal ég fyrir mitt leyti taka það á mig, en hins vegar er nú sú reynsla að það vill gjarnan vera þannig að undirbúningur af þessu tagi fer ekki almennilega í gang fyrr en fer að hilla undir það verk sem vinna skal.
    Ég hygg, virðulegi forseti, að ég láti þessi fáu orð nægja til að fylgja þessu máli úr hlaði.