Aðild Alþingis að 50 ára afmæli lýðveldisins

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 15:11:48 (5093)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Á dagskrá í dag eru tvær tillögur um sama efni. Ég hygg að hægt sé að koma saman einni tillögu svo að báðum tillögunum sé gert jafnhátt undir höfði þannig að góð meining allra tillögumanna nái fram að ganga. Ég held að það sé mjög mikilvægt við þetta sérstaka tækifæri, 50 ára afmæli lýðveldisins, að reyna að forðast flokkadrætti við undirbúning þess og framkvæmd hátíðahaldanna. Ég held að það fari best á því að reyna að sameina þjóðina svo sem frekast er kostur og forðast að blanda inn í þetta pólitískum deilumálum.
    Í hinu merkilega riti Guðjóns Friðrikssonar um Jónas Jónsson frá Hriflu er sagt frá undirbúningi alþingishátíðarinnar 1930. Þar kemur fram að hugmyndir voru uppi af hálfu þáv. stjórnarandstöðu um að nota tækifærið og klekkja á þáv. dómsmrh. með málatilbúnaði á hátíðaþingi á Þingvöllum. Manni finnst eftir á þegar maður les þessar frásagnir alveg með ólíkindum hvað mönnum gat dottið í hug 1930. Sem betur fór náðu þær hugmyndir ekki fram að ganga. Ég held að við ættum að reyna að standa sameinuð og myndarlega að þessum hátíðahöldum. Ég er alveg sammála hæstv. forsrh. að við ættum að forðast að gera þetta að einhverri bruðlhátíð. En ég held að heppilegt sé að reyna að gæta eðlilegrar reisnar.
    Ég tel fyrir mitt leyti að til þess að ná sem mestri pólitískri einingu sé fullt svo eðlilegt að skipa nefndina með þeim hætti sem lagt er til í tillögu þremenninganna, þ.e. kjósa hana hlutfallskosningu, þó að mér finnist hitt fyrirkomulagið líka vel geta komið til greina. Það skiptir mig ekki miklu máli hvort nefndin er skipuð sex mönnum eða sjö.
    Hvað varðar hugmyndina um breytingu á stjórnarskrá, sem í tillögu þremenninganna er tengd afmælinu, finnst mér að hún gæti vel komið til skoðunar, þ.e. að setja sér einhver tímamörk til endurskoðunar stjórnarskránni. Það getur vel verið að þessi tími sé ekki verr valinn en annar. Ég tel að við Íslendingar búum við tiltölulega mjög góða og tiltölulega mjög skýra stjórnarskrá og getum í megindráttum verið ánægðir með framsetningu hennar og þann anda sem hún boðar. Ég verð að vísu að játa að mér finnst að sumir alþingismenn umgangist hana ekki af nægilegri alvöru en ætla ekki að rifja upp dæmi þar um sem hefur borið á góma hér fyrr í vetur.
    Þrátt fyrir að mér finnist stjórnarskráin góð tel ég réttmætt að leggja nokkra vinnu í endurskoðun hennar eða athugun á hverju þurfi að breyta. Það vantar nútímaleg ákvæði um mannréttindi. Það vantar ákvæði sem heimila Íslandi að gerast aðili að fjölþjóðasamningum sem nauðsynlegt kann að vera að gera, t.d. um umhverfismál, þar sem strandar á ákvæðunum um fullveldið. Það vantar ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér líst vel á það að Alþingi verði kvatt saman sérstaklega til fundar um stjórnarskrána þar sem önnur efni verði ekki tekin fyrir og get prýðilega vel stutt þá hugmynd.
    Ég tel jafnframt að a.m.k. ef leita á að einingu sé mikilvægt að taka kosningalagaþáttinn út og ræða hann sérstaklega undir öðrum formerkjum en ekki í tilefni afmælishátíðar lýðveldisins. Ég hygg að það geti miklu fremur orðið eining um aðra þætti en þann þátt sem, eins og menn þekkja, er mjög viðkvæmur. Að vísu myndaðist eining á Alþingi um núgildandi kosningalög. En það er sannast mála að sjálfsagt er enginn ánægður með þau. Þau eru út af fyrir sig ekki óréttlát en á hinn bóginn eru þau flókin og gallar á þeim, sem að vísu voru fyrir séðir, það hefur sannast. Núgildandi kosningalög eru engin eilífðarsmíð.
    Sjálfstfl. er farinn að hreyfa breytingarhugmyndum að kosningalögum sem útheimtir að sjálfsögðu stjórnarskrárbreytingu. Ég verð að játa að það sem ég hef heyrt af þeim hugmyndum, sem eru að vísu aðeins úr fjölmiðlum og í mjög lauslegri útgáfu, líst mér ekki á. Ég held að þær bæti ekki núgildandi kosningalög og enda eru þær sjálfsagt settar fram fyrst og fremst til þess að smala saman Sjálfstfl. í næstu kosningum þannig að ekki verði kosið um verk núv. ríkisstjórnar í næstu kosningum.
    Ég lýsi stuðningi við þær hugmyndir sem koma fram í þáltill. Ég styð það að við reynum að minnast með mjög viðeigandi hætti lýðveldisafmælisins 1994 og er tilbúinn að leggja fram vinnu í því sambandi.