Aðild Alþingis að 50 ára afmæli lýðveldisins

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 15:30:09 (5097)

     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðurnar sem hér hafa farið fram og þakka sérstaklega hæstv. forseta Alþingis fyrir þau orð sem hún lét falla í þessum umræðum.
    Ég er sammála því sem fram hefur komið að auðvitað kemur tiltölulega margt upp í hugann varðandi atburði sem hægt væri að efna til í tengslum við afmæli lýðveldisins. Hér hefur margt verið nefnt. Mér fannst þetta gott sem bent var á í sambandi við Þjóðskjalasafn. Mér fannst gott að heyra að Þingvallanefnd vildi eiga aðild að málinu. Mér fannst einnig góð hugmyndin hjá hv. 18. þm. Reykv. varðandi söguna. Ég bendi hins vegar á það, virðulegi forseti, að við höfum á undanförnum áratugum iðulega við svipuð tilefni tekið ákvarðanir um að rita bækur, halda fundi eða stórar ráðstefnur eða jafnvel að byggja hús eða jafnvel að rækta landið. Staðreyndin er sú að eftir því sem þessar ákvarðanir hafa verið hátimbraðri þeim mun erfiðara hafa menn átt með að standa við þær. Það er nú bara þannig. Ég held að við eigum að velta því fyrir okkur hvort ekki sé til ákvörðun sem er þannig að hún stendur lengi en er samt ekki bara flugeldasýning, er ekki bara hátíðasamkoma fyrir Reykvíkinga og nánasta umhverfi heldur ákvörðun sem snertir þjóðina alla, landsmenn alla hvar sem þeir búa. Ég held að ákvörðun um endurskoðun stjórnarskrárinnar sé einmitt af þessu tagi. Ég held reyndar að endurskoðun stjórnarskrárinnar og sérstakt stjórnlagaþing væru einmitt ákvörðun af þessum toga.
    Ég tek undir það sem fram kom áðan hjá hæstv. forseta, og hafði reyndar komið lauslega fram í máli mínu áður, að ég tel að sú málsmeðferð sem hér er gert ráð fyrir, að málinu verði ekki vísað til nefndar heldur sé óformlega til meðferðar í forsætisnefnd, sé skynsamleg og að formenn þingflokkanna komi að sjálfsögðu að því. Ég tel líka nauðsynlegt, sem kom fram hjá hv. 18. þm. Reykv., að tillögurnar verði afgreiddar fljótt. Ég bendi á að ég skrifaði þann tillögutexta sem ég er aðili að í janúar 1992. Það er því kominn dálítið langur tími síðan þetta var upphaflega lagt fyrir.
    Hitt er líka nauðsynlegt að rifja upp, eins og hæstv. forsrh. benti á, að það hefur gríðarlega mikil vinna farið fram í sambandi við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það liggur fyrir alveg óhemjumagn af prýðilegum textum í þeim efnum, m.a. frá þeirri stjórnarskrárnefnd sem Gunnar Thoroddsen veitti forstöðu á sínum tíma. Gögn frá henni voru lögð fram í skýrsluformi á Alþingi á sínum tíma þar sem greint var frá ekki aðeins öllum þeim tillögum sem flokkarnir gátu náð saman um varðandi þetta mál heldur voru þar líka tillögur frá hverjum flokki fyrir sig að svo miklu leyti sem hinir flokkarnir höfðu ekki samþykkt þær. T.d. voru ýmsar tillögur í þeirri skýrslu frá þingflokki Alþb. man ég eftir. Þar voru ýmsar tillögur frá þingflokki Alþfl., t.d. varðandi eignarhald á landi ef ég man rétt sem aðrir flokkar höfðu ekki alveg hiklaust viljað skrifa upp á og þannig mætti lengi telja. En vinnan liggur þarna fyrir að verulegu leyti og þess vegna er það hárrétt sem fram kom hjá hæstv. forsrh. að það má hugsa sér að á þessu máli sé tekið núna og í það fari nokkrir mánuðir á vegum stjórnarskrárnefndar, annaðhvort þeirrar sem nú situr og hún fái þá sérstakt hvatningarbréf í þeim efnum, eða að einhver stjórnarskrárnefnd verði endurskipulögð, en það verður þá líka að vera samkomulag um það. Það er í raun og veru nauðsynlegt að samkomulag sé um hvert einasta skref í máli af þessu tagi.
    Ég bendi á að á síðasta kjörtímabili náðum við samkomulagi um breytingar á stjórnarskránni. Við breyttum hvorki meira né minna en því að Alþingi, sem áður hafði verið í tveimur málstofum, er núna í einni. Það var gríðarlega mikil og róttæk breyting á stjórnskipun Íslendinga. Mér finnst að sú breyting og það hvernig unnið var að henni sýni að það á að vera hægt að ná samstöðu um þessi veigamiklu mál.
    Varðandi síðan það, virðulegi forseti, sem kom fram hjá hæstv. forsrh. að hann væri ekki tilbúinn til að skrifa upp á það að ný stjórnarskrá ætti að taka gildi 17. júní 1994. Hann gerir sér bersýnilega von um það að ríkisstjórn hans sitji þangað til og kannski eitthvað aðeins lengur. Ég get alveg skilið þetta sjónarmið forsrh. að öllu gamni slepptu. Það er einfalt að koma til móts við það með því að lokaafgreiðslan á málinu færi ekki fram á þessu sérstaka stjórnlagaþingi heldur síðustu dagana áður en Alþingi er rofið og efnt til kosninga, hvort sem það yrði seint á árinu 1994 eða snemma á árinu eða á miðju árinu 1995. Það er ákaflega einfalt að koma til móts við það sjónarmið. Þegar ég tala um stjórnlagaþing er ég ekki að gera tillögu um að kosið verði sérstaklega til stjórnlagaþings. Ég geri ráð fyrir því að sömu þingmenn sitji stjórnlagaþingið og þeir sem kosnir eru nú á Alþingi. Það verði um að ræða aukaþing sem hafi þetta eina verkefni. Þó ekki sé hægt að banna mönnum að taka ýmis önnur mál fyrir eins og við þekkjum úr fyrri sögu er hægt að halda þannig á málum að þetta taki fyrir stjórnarskrána og ekkert annað og ná um það samstöðu.
    Ég tel það mikilvægt sem fram kom hjá hæstv. forseta Alþingis að við eigum af þessu tilefni að leitast við að sameinast um sérstakt mál sem varðar þjóðarhag. Mér finnst að umræðurnar og andinn í þeim sé með þeim hætti að við getum gert okkur vonir um að lendingin verði jákvæð.

    Hæstv. forseti Alþingis minntist að það hefði verið ánægjulegt að vera á Þingvöllum 17. júní 1944 í rigningunni. Því miður hafði ég ekki aðstöðu til að vera þar staddur þar sem nokkuð skorti á að ég væri borinn í þennan heim um það leyti og hef lengi harmað þau mistök foreldra minna að leysa það mál ekki með öðrum hætti. En ég vil líka segja í tilefni af þessum orðum hæstv. forseta Alþingis að ég held að þeim fækki sem beri í hjarta sér þá tilfinningu sem varð til 17. júní 1944. Ég held að við sem síðan höfum tekið við störfum í landinu höfum vanrækt að flytja þessa tilfinningu áfram á milli kynslóðanna. Ég held að eitt af því sem við gætum gert í sameiningu væri að gefa nýjum kynslóðum þessa tilfinningu eða a.m.k. að vekja hana á ný í brjóstum okkar ef við höldum skynsamlega á málum í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins.