Vextir og kjarasamningar

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 13:35:17 (5102)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Austurl. beinir til mín tveimur spurningum og skal ég reyna að svara þeim.
    Í fyrsta lagi staðhæfir hann að raunvextir hér á landi séu háir og það er að sjálfsögðu rétt, a.m.k. þegar um suma lánaflokka eða sumar skuldbindingar er að ræða eins og spariskírteini ríkissjóðs. Hæstv. ríkisstjórn hefur að sjálfsögðu áhyggjur af þessu og hefur verið í sambandi við lífeyrissjóðina og mun taka upp viðræður við Seðlabanka og aðra þá aðila sem geta haft áhrif á vaxtastigið í landinu. Það mun vera gert á vegum viðskrn. og fjmrn.
    Um það hvort ríkisstjórnin hyggist lækka vexti þá er svarið við þeirri spurningu að það er í sjálfu sér tilgangslaust vegna þess að vextir ákvarðast á markaði. Nú er búið að gera samning við Seðlabankann þannig að ekki er um yfirdráttarheimildir að ræða nema að mjög takmörkuðu leyti vegna fjármögnunar ríkissjóðs en ríkissjóður fjármagnar sig með því að selja bréf á markaði. Ég er sannfærður um að hægt sé að ná niður raunvaxtastiginu í landinu. Til þess þarf nokkrar samvirkandi aðgerðir og ríkisstjórnin mun hafa frumkvæði að því að hafa samband við þá aðila sem áhrif hafa á þau mál.
    Spurningunni um kjarasamningana og skattbyrðina er örðugt að svara á þessari stundu. Ég vil aðeins rifja upp að ástæðan fyrir því að skattbyrðin var færð til af fyrirtækjum og á einstaklinga og heimili var sú að við vildum styrkja og efla atvinnulífið og við töldum að þannig ætti að jafna því tapi sem þjóðin hefur orðið fyrir á þá einstaklinga sem hafa tekjur og hafa vinnu. Meginmarkmið okkar, ekki einungis ríkisstjórnarinnar heldur einnig stjórnarandstöðunnar og aðila vinnumarkaðarins, hlýtur að vera að efla atvinnulífið og gera tilraun til að útrýma því atvinnuleysi sem hefur tekið sér hér bólfestu um sinn.